Torstein Pettersen, deildarstjóri rannsóknardeildar Finnmerkurumdæmis norsku lögreglunnar, sagði þegar mbl.is ræddi við hann í gær að lögregla hefði ekkert haft í höndunum sem styddi þann grun að Gunnar Jóhann Gunnarsson, sem grunaður er um að hafa ráðið Gísla Þór Þórarinsson hálfbróður sinn af dögum í Mehamn aðfaranótt 27. apríl, hefði haft aðgang að skotvopni dagana fyrir andlát Gísla.
„Við höfðum ekkert í höndunum sem styður það að grunaði hafi haft aðgang að vopni áður en manndrápið átti sér stað,“ sagði Pettersen, „það hefur þegar verið leitt í ljós við rannsókn málsins að grunaði kom höndum yfir skotvopnið sama morgun og ódæðið var framið,“ sagði hann einnig.
Þessi yfirlýsing deildarstjórans gengur þvert á þær upplýsingar sem mbl.is og norski netmiðillinn iFinnmark öfluðu frá tveimur heimildarmönnum í gær og fyrradag, annar þeirra er Marius Nilsen, sem steig fram í viðtali við iFinnmark í gær, en hinn getur mbl.is ekki nafngreint.
Báðir heimildarmennirnir standa á því fastar en fótunum að hvort tveggja kærasta Gísla Þórs heitins og hann sjálfur hafi látið lögreglu í té þær upplýsingar að grunaði, Gunnar Jóhann, hafi haft aðgang að skotvopni á því tímabili sem hann hafði í hótunum við hálfbróður sinn og hafði fengið sér úrskurðað nálgunarbann gagnvart honum 17. apríl sem sýslumannsembættið tilkynnti Gunnari um símleiðis, en þá framkvæmd gagnrýndi Nilsen harðlega í samtali sínu við iFinnmark í gær eins og lesa má í fréttinni bak við hlekkinn hér að ofan.
Lögreglan í Finnmörku þagði þunnu hljóði um hugsanlegt skotvopn í fórum Gunnars Jóhanns við iFinnmark í fyrradag og í gærmorgun, þar til iFinnmark og mbl.is höfðu birt fréttir sínar af grunsemdum Gísla Þórs og aðstandenda hans.
Samkvæmt því sem ritstjóri iFinnmark tjáði mbl.is í gær barst skrifleg yfirlýsing frá Önju Mikkelsen Indbjør saksóknara fáeinum mínútum eftir að iFinnmark og mbl.is birtu fréttir sínar í gærmorgun. Var yfirlýsing Indbjør svohljóðandi:
„Í tengslum við kæruna vegna hótana og úrskurð lögreglu 17.04.2019 [nálgunarbannið] var spurt hvort grunaði hefði aðgang að vopni. Hvort tveggja þeirra sem misgert var við [Gísli Þór og unnusta hans] sagðist ekki telja að svo væri og vísuðu til þess að þau hefðu hvorki séð vopn né öryggisskáp fyrir vopnageymslu á heimili grunaða. Hins vegar var orð haft á því að vopn hefði horfið frá þriðja aðila árið áður og hugsanlegt væri að grunaði hefði verið þar að verki, en þetta höfðum við enga vitneskju um. Enginn rökstuddur grunur lá fyrir um ólöglegar vörslur vopns og því var ekki tekin ákvörðun um að framkvæma húsleit heima hjá grunaða,“ sagði Indbjør saksóknari í yfirlýsingu sinni.
Enn fremur sagði hún að sá aðili sem sakna hefði átt horfins vopns hefði sagt lögreglu að sú væri ekki raunin. „Það var heldur ekki það vopn sem lögregla lagði hald á á vettvangi. Vopnið sem lögregla telur hafa verið notað við verknaðinn útvegaði grunaði sér sama dag og ódæðið var framið.“ Hún segir að til að lögreglu sé stætt á að verða sér úti um húsleitarheimild verði rökstuddur grunur að liggja fyrir, líkurnar á broti verði að vera meira en helmingslíkur (n. sannsynlighetsovervekt på over 50 prosent).
„Slíkt lá ekki fyrir og ákæruvaldið hafði af þeim sökum ekki efni til að aðhafast meira en að fá úrskurðað nálgunarbann, það var gert sama dag. Grunaði fór frá Mehamn daginn sem honum var úrskurðað nálgunarbannið,“ sagði Anja Mikkelsen Indbjør, handhafi ákæruvalds Finnmerkurlögreglunnar, í niðurlagi yfirlýsingar sinnar í gær.