„Hann útvegaði vopnið sama morgun“

„Við höfðum ekkert í höndunum sem styður það að grunaði …
„Við höfðum ekkert í höndunum sem styður það að grunaði hafi haft aðgang að vopni áður en manndrápið átti sér stað,“ sagði Torstein Pettersen, deildarstjóri rannsóknardeildar Finnmerkurumdæmis norsku lögreglunnar og stjórnandi rannsóknar Mehamn-málsins. Ljósmynd/Ole-Tommy Pedersen/Finnmarken

Tor­stein Petter­sen, deild­ar­stjóri rann­sókn­ar­deild­ar Finn­merk­urum­dæm­is norsku lög­regl­unn­ar, sagði þegar mbl.is ræddi við hann í gær að lög­regla hefði ekk­ert haft í hönd­un­um sem styddi þann grun að Gunn­ar Jó­hann Gunn­ars­son, sem grunaður er um að hafa ráðið Gísla Þór Þór­ar­ins­son hálf­bróður sinn af dög­um í Mehamn aðfaranótt 27. apríl, hefði haft aðgang að skot­vopni dag­ana fyr­ir and­lát Gísla.

„Við höfðum ekk­ert í hönd­un­um sem styður það að grunaði hafi haft aðgang að vopni áður en mann­drápið átti sér stað,“ sagði Petter­sen, „það hef­ur þegar verið leitt í ljós við rann­sókn máls­ins að grunaði kom hönd­um yfir skot­vopnið sama morg­un og ódæðið var framið,“ sagði hann einnig.

Í ber­högg við upp­lýs­ing­ar mbl.is og iF­inn­mark

Þessi yf­ir­lýs­ing deild­ar­stjór­ans geng­ur þvert á þær upp­lýs­ing­ar sem mbl.is og norski net­miðill­inn iF­inn­mark öfluðu frá tveim­ur heim­ild­ar­mönn­um í gær og fyrra­dag, ann­ar þeirra er Marius Nil­sen, sem steig fram í viðtali við iF­inn­mark í gær, en hinn get­ur mbl.is ekki nafn­greint.

Báðir heim­ild­ar­menn­irn­ir standa á því fast­ar en fót­un­um að hvort tveggja kær­asta Gísla Þórs heit­ins og hann sjálf­ur hafi látið lög­reglu í té þær upp­lýs­ing­ar að grunaði, Gunn­ar Jó­hann, hafi haft aðgang að skot­vopni á því tíma­bili sem hann hafði í hót­un­um við hálf­bróður sinn og hafði fengið sér úr­sk­urðað nálg­un­ar­bann gagn­vart hon­um 17. apríl sem sýslu­mann­sembættið til­kynnti Gunn­ari um sím­leiðis, en þá fram­kvæmd gagn­rýndi Nil­sen harðlega í sam­tali sínu við iF­inn­mark í gær eins og lesa má í frétt­inni bak við hlekk­inn hér að ofan.

Lög­regl­an í Finn­mörku þagði þunnu hljóði um hugs­an­legt skot­vopn í fór­um Gunn­ars Jó­hanns við iF­inn­mark í fyrra­dag og í gær­morg­un, þar til iF­inn­mark og mbl.is höfðu birt frétt­ir sín­ar af grun­semd­um Gísla Þórs og aðstand­enda hans. 

Yf­ir­lýs­ing sak­sókn­ara nokkr­um mín­út­um eft­ir frétt­ir

Sam­kvæmt því sem rit­stjóri iF­inn­mark tjáði mbl.is í gær barst skrif­leg yf­ir­lýs­ing frá Önju Mikk­el­sen Ind­bjør sak­sókn­ara fá­ein­um mín­út­um eft­ir að iF­inn­mark og mbl.is birtu frétt­ir sín­ar í gær­morg­un. Var yf­ir­lýs­ing Ind­bjør svohljóðandi:

„Í tengsl­um við kær­una vegna hót­ana og úr­sk­urð lög­reglu 17.04.2019 [nálg­un­ar­bannið] var spurt hvort grunaði hefði aðgang að vopni. Hvort tveggja þeirra sem mis­gert var við [Gísli Þór og unn­usta hans] sagðist ekki telja að svo væri og vísuðu til þess að þau hefðu hvorki séð vopn né ör­ygg­is­skáp fyr­ir vopna­geymslu á heim­ili grunaða. Hins veg­ar var orð haft á því að vopn hefði horfið frá þriðja aðila árið áður og hugs­an­legt væri að grunaði hefði verið þar að verki, en þetta höfðum við enga vitn­eskju um. Eng­inn rök­studd­ur grun­ur lá fyr­ir um ólög­leg­ar vörsl­ur vopns og því var ekki tek­in ákvörðun um að fram­kvæma hús­leit heima hjá grunaða,“ sagði Ind­bjør sak­sókn­ari í yf­ir­lýs­ingu sinni.

Anja Mikkelsen Indbjør, saksóknari lögregluembættisins í Finnmörku, sagði í gær …
Anja Mikk­el­sen Ind­bjør, sak­sókn­ari lög­reglu­embætt­is­ins í Finn­mörku, sagði í gær að lög­regla hefði ekki talið sig hafa haft ástæðu til að fram­kvæma hús­leit á heim­ili grunaða vegna hugs­an­legs skot­vopns þar, rök­studd­ur grun­ur hefði ekki verið fyr­ir hendi. Ljós­mynd/​Andrea Dahl/​iF­inn­mark

Enn frem­ur sagði hún að sá aðili sem sakna hefði átt horf­ins vopns hefði sagt lög­reglu að sú væri ekki raun­in. „Það var held­ur ekki það vopn sem lög­regla lagði hald á á vett­vangi. Vopnið sem lög­regla tel­ur hafa verið notað við verknaðinn út­vegaði grunaði sér sama dag og ódæðið var framið.“ Hún seg­ir að til að lög­reglu sé stætt á að verða sér úti um hús­leit­ar­heim­ild verði rök­studd­ur grun­ur að liggja fyr­ir, lík­urn­ar á broti verði að vera meira en helm­ings­lík­ur (n. sann­syn­lig­het­so­ver­vekt på over 50 prosent).

„Slíkt lá ekki fyr­ir og ákæru­valdið hafði af þeim sök­um ekki efni til að aðhaf­ast meira en að fá úr­sk­urðað nálg­un­ar­bann, það var gert sama dag. Grunaði fór frá Mehamn dag­inn sem hon­um var úr­sk­urðað nálg­un­ar­bannið,“ sagði Anja Mikk­el­sen Ind­bjør, hand­hafi ákæru­valds Finn­merk­ur­lög­regl­unn­ar, í niður­lagi yf­ir­lýs­ing­ar sinn­ar í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert