Jökulsárlónið mjög vel auglýst

Ferðamenn við Jökulsárlón að vetrarlagi. Í febrúar í fyrra heimsóttu …
Ferðamenn við Jökulsárlón að vetrarlagi. Í febrúar í fyrra heimsóttu um 46.000 manns Jökulsárlón. mbl.is/RAX

Auðvelt aðgengi og gott markaðsstarf eiga sinn þátt í því að lítil árstíðasveifla er í komum ferðamana að Jökulsárlóni, þrátt fyrir að heimsókn þangað feli í sér langan akstur. Þetta er mat Gyðu Þórhallsdóttur, doktorsnema og eins höfunda könnunar um fjölda og dreifingu ferðamanna 2018, sem kynnt var á fundi Ferðamálastofu í gær.

Gyða hefur, ásamt Rögn­valdi Ólafs­syni, þróað aðferðafræði sem byggir á taln­ing­um bíla sem koma á yfir 30 áfanga­staði um allt land.

Niðurstöðurnar byggja á talningum sem gerðar voru í ágúst, október og febrúar á árabilinu frá 2015-2018 og meðal þeirra staða sem talningarnar eru gerðar á eru Þingvellir, Jökulsárlón, Reykjanesviti, Hraunfossar, Djúpalónssandur, Látrabjarg, Dimmuborgir og Landmannalaugar.

Áberandi árstíðasveifla er á sumum þessara staða. Þannig detta gestakomur til að mynda nær alfarið niður í Landmannalaugum og á Látrabjargi yfir vetrartímann. Sums staðar dregur verulega úr þeim, eins og t.d. í Dimmuborgum þar sem um 86.000 gestir komu í ágúst í fyrra, í október var ferðamannafjöldinn kominn niður 22.000 og í febrúar voru ferðamennirnir um 7.000.  Þingvelli heimsóttu um 185.000 í ágúst samkvæmt talningunni, um 139.000 í október og 89.000 í febrúar. Gestir í Jökulsárlóni voru þá um 124.000 í ágúst, 76.000 í október og 46.000 í febrúar.

Fjöldinn í febrúar.
Fjöldinn í febrúar. mbl.is
Fjöldinn í október
Fjöldinn í október mbl.is

Auðvelt aðgengi og marksaðssetning

Lítið árstíðasveifla í komum ferðamanna til Þingvalla kemur varla mikið á óvart, en öllu lengri akstur er í Jökulsárlón.

„Þetta eru þessir staðir sem hafa verið vinsælir, þeir verða líka vinsælir meðal ferðamannanna,“ segir Gyða. „Ég held að samgöngurnar séu líka að skipta alveg rosalega miklu máli.“ Hún bætir við að þrátt fyrir kílómetrafjölda þá sé auðvelt að komast í Jökulsárlón árið um kring.  

„Við sjáum líka að Jökulsárlónið er mjög vel auglýst,“ segir hún. „Síðan er það líka staður þar sem maður getur séð á auðveldan hátt bæði jökul og lón.“ Slíkt sé ekki sýnilegt víða með sambærilegum hætti. „Þannig að svoleiðis staður dregur að.“

Veðrið telur Gyða þá einnig eiga sinn þátt, ekki síður en samgöngurnar, í að komur ferðamanna detta mikið til niður á Vestfjörðum yfir vetrarmánuðina. Hún bendir þó einnig á að Látrabjargið til að mynda, sé einkum staður sem laði að ferðamenn sem hyggi á fuglaskoðun og því heimsæki fólk þann stað aðallega þegar fuglinn er.

Marg­ir ferðamannastaðir á Norður-og Vest­ur­landi eru einnig vannýtt­ir utan há­anna­tíma, á meðan að taln­ingin sýn­ir að Suður­land er vin­sælt meðal ferðamanna allt árið um kring.

Horft yfir hnípta brún á Látrabjargi. Þeir ferðamenn sem þangað …
Horft yfir hnípta brún á Látrabjargi. Þeir ferðamenn sem þangað koma eru margir í fuglaskoðun og koma því helst yfir sumartímann þegar fuglinn er. mbl.is/Árni Sæberg

„Við sjáum þó að Borgarfjörðurinn og Snæfellsnesið eru líka að sækja á,“ segir Gyða og kveðst telja vel heppnaðri markaðssetningu það að þakka. „Síðan er líka verið að reyna að dreifa ferðamönnum,“ bætir hún við og kveður það kunna að eiga einnig þátt í máli.

Ekki sé þó hægt að útiloka að ferðamenn geri einfaldlega margir víðreistar um landið en áður og þetta sama fólk sé því líka að heimsækja Jökulsárlón svo dæmi séu tekin. „Mikið af ferðamönnunum sem koma hingað, þeir  koma til þess að sjá þessa helstu staði,“ bætir hún við en þau Rögnvaldur segja í skýrslunni hægt mjakast til betri veg­ar og að hægt sé að draga meira úr árstíðasveifl­unni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert