Ögrandi hjólalist í Breiðholti

Hjól listamannsins Anssi Pulkkinen hafa vakið mikla athygli vegfarenda.
Hjól listamannsins Anssi Pulkkinen hafa vakið mikla athygli vegfarenda. mbl.is/Einar Falur

Vegfarendur hafa margir hverjir rekið upp stór augu á ferðum sínum um Breiðholtið undanfarna daga, en þar má á nokkrum stöðum líta reiðhjól sem virðast hafa orðið undir grjóthnullungum.

Ef marka má umræður í Facebook-hóp íbúa Selja- og Bakkahverfis finnst einverjum þetta óþægileg sjón sem minnir á skemmdarverk eða slys. Skýringuna á þessum furðuverkum má þó rekja til 50 ára afmælisdagskrár Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík.

„Þetta er búið að vekja mikla athygli. Fólk er forvitið, bæði börn og fullorðnir spyrja hvað í ósköpunum við séum að gera,“ segir Aðalheiður Valgeirsdóttir, verkefnastjóri sýningarinnar ÚTHVERFI, sem hjólin eru hluti af.

Hjólin, sem vakið hafa athygli Breiðhyltinga og annarra, eru eftir finnska listamanninn Anssi Pulkkinen. Hjólin má finna á þremur stöðum í Breiðholti: við göngu- og hjólastíg við Skógarsel, göngu- og hjólastíg við Seljaskóga á mótum Grófarsels og Hagasels og við göngu- og hjólastíg við Arnarbakka og Ferjubakka.

„Þetta er svolítið ögrandi, ég er sammála því,“ segir Aðalheiður, aðspurð út í viðbrögð við listaverkunum. Hún segir þó að aðstandendur sýningarinnar hafi ekki fundið fyrir neinu ósætti vegna þeirra.

Sýningin ÚTHVERFI, sem níu listamenn taka þátt í og stendur fram í lok ágúst, verður formlega opnuð í Gerðubergi á föstudag, 17. maí. Nánar má lesa um sýninguna og viðtal við listamanninn á bakvið hjólin, Anssi Pulkkinen, á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert