Aftur til starfa þvert gegn óskum biskups

Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti og starfandi biskup Íslands.
Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti og starfandi biskup Íslands.

Það er algjörlega út í hött að koma fram með samsæriskenningu um að sameining tveggja prestakalla sé gerð til höfuðs Ólafi Jóhannssyni sóknarpresti, sem gerðist brotlegur við siðareglur kirkjunnar.

Þetta segir Kristján Björnsson, settur biskup Íslands, í samtali við mbl.is aðspurður um orð Einars Gauta Steingrímssonar, lögmanns Ólafs, í gær. Til stendur að sameining Bústaðaprestakalls og Grensásprestakalls í eitt Fossvogsprestakall verði að veruleika þann 1. júní og segir Kristján það vera liður í endurskipulagningu prestakalla um allt land.

„Finnst fólki ekki frekar langsótt að þetta sé samsæri gegn einum manni, að endurskipuleggja kirkjuna um allt land? Það sem meira er að aðalrökin fyrir þessum sameiningum er að útrýma einmenningsprestaköllum. Á Reykjavíkursvæðinu uppfylltu Bústaða- og Grensásprestaköll þetta mjög vel þar sem einn sóknarprestur var í hvoru. Nú verða þrír prestar og einn sóknarprestur,“ segir Kristján, en þetta sé gert til þess að bæta vinnuumhverfi presta og sé í vinnslu um allt land. Orð lögmannsins standist því enga skoðun.

„Þegar menn sjá planið þar sem búið er að teikna landið upp á nýtt til þess að útrýma þessum einmenningsprestaköllum, þá er þetta alveg út í hött. Þetta er út úr einhverjum heimi sem ég veit ekki hvar er,“ segir Kristján, en hann sendi frá sér yfirlýsingu í gær vegna máls Ólafs.

Siðferðisbrotin standa þrátt fyrir niðurstöðuna

Ólafi var veitt lausn frá starfi tíma­bundið af Agnesi M. Sig­urðardótt­ur bisk­upi 5. des­em­ber í fyrra eftir að niðurstaða úrskurðar- og áfrýjunarnefndar kirkjunnar komst að þeirri niðurstöðu að Ólafur hafi gerst sekur um siðferðisbrot gegn tveimur konum.

Í gær kom hins vegar álit frá nefnd fjármálaráðuneytisins um tímabundnar lausnir ríkisstarfsmanna frá störfum. Þar sagði að ákvörðun biskupsstofu um að veita séra Ólafi tíma­bundna lausn frá störf­um hafi ekki verið rök­studd með full­nægj­andi hætti. Til þess að hægt sé að víkja ríkisstarfsmönnum úr starfi án áminningar þarf brot að varða við hegningarlög, en biskup taldi að niðurstaða úrskurðarnefndar kirkjunnar væri nægileg ástæða til þess að víkja Ólafi tímabundið úr starfi án þess að veita honum fyrst áminningu.

„Niðurstaðan er sú að þetta hafi ekki verið rétt, því ekki sé nægjanlegt að vísa í niðurstöðuna um siðferðisbrotin hjá úrskurðar- og áfrýjunarnefnd. En þessi ráðherranefnd rekur siðferðisbrotin í sínum úrskurði og hann er þá á engan hátt sýknaður frá þeim. Siðferðisbrotin standa og þá eru þau aftur orðin óafgreidd mál innan kirkjunnar, að þjónandi prestur hafi gerst sekur um siðferðisbrot gegn tveimur konum,“ segir Kristján.

Kirkjuleiðtogar segja brotaþolum ekki fyrir verkum

Eftir álit ráðherranefndarinnar ákvað biskupsstofa að greiða Ólafi vangreidd laun frá því honum var tímabundið vikið úr starfi. Kristján vill hins vegar ekki segja að kirkjan hafi brotið stjórnsýslulög, þrátt fyrir úrskurð nefndarinnar.

„Það er bara ókannað og sá sem telur á sér brotið verður að setja það ferli í gang. Biskup Íslands fer ekki að kanna hvort hann [biskup] hafi gerst sekur um það [stjórnsýslulagabrot]. Niðurstaðan er bara sú að biskup hafi ekki verið í rétti að víkja honum á þessum forsendum sem tilgreindar voru. Þetta er lagalegt atriði og ég ætla ekki að dæma um það hvernig það endar,“ segir Kristján.

Hann ítrekar að kirkjan hafi ekki farið þá leið að leita til úrskurðar- og áfrýjunarnefndar sinnar vegna þeirra siðferðisbrota sem Ólafur var sakaður um. Sú nefnd starfi óháð biskup og það hafi verið lögmenn kvennanna, sem töldu á sér brotið, sem ráðlögðu þeim að leita til þeirrar nefndar en ekki til lögreglu, svo dæmi sé tekið.

„Eftir því sem ég best veit ráðleggur biskup aldrei konunum. Það er alveg nóg að hafa verið brotið á sér siðferðilega, eins og nú er búið að staðfesta, án þess að kirkjuleiðtogar reyni að segja þeim fyrir verkum líka,“ segir Kristján.

En vegna þess að kirkjan vék Ólafi frá störfum vegna niðurstöðu úrskurðar- og áfrýjunarnefndar sinnar, sem reyndist ekki rétt leið, gæti hún verið að skapa sér skapabótaskyldu vegna brota á stjórnsýslulögum.

„Já, ef Ólafi finnst á sér brotið með þessu og telur sig ekki þurfa að taka afleiðingum af því sem hann hefur gerst sekur um gagnvart þessu siðferðisbroti, þá þarf hann að leita réttar síns með það. Það er óeðlilegt að biskup Íslands blandi sér í það,“ segir Kristján.

Grensáskirkja.
Grensáskirkja.

Kom ekki aftur til starfa með leyfi biskups

Kristján segir að Ólafur hafi verið kallaður á sinn fund, ásamt lögmanni sínum, á mánudag. Þar var honum tilkynnt að Grensásprestakall yrði lagt niður um komandi mánaðarmót. Einnig óskaði biskup eftir því að Ólafur myndi ekki snúa aftur til starfa fram að því, eða næsta hálfa mánuðinn. Ólafur svaraði því hins vegar til að hann myndi hunsa þá ósk.

„Mér þykir það mjög leiðinlegt og tel að það hefði verið viturlegt af honum að fara að ósk biskups Íslands sem hefur agavaldið í kirkjunni. Ég tel að hann hefði getað lagt sitt af mörkum til þess að skapa frið í þessum málum,“ segir Kristján, en búið hafi verið að gera ráðstafanir með þjónustu Grensáskirkju fram að sameiningu prestakalla.

Í hverju felst þá starf Ólafs nú þegar hann hefur snúið aftur til vinnu, til mánaðarmóta?

„Mér er ekki nógu kunnugt um það. Mér skilst að hann hafi mætt í kirkjuna í gær, þar sem honum er auðvitað frjálst að koma inn og út. En hann er ekki kominn til starfa í þjónustu kirkjunnar með leyfi biskups Íslands,“ segir Kristján, en spurður út í svar sitt vill hann þó ekki meina að Ólafur hafi verið að brjóta reglur.

„Þetta var sett fram sem ósk. Biskup getur samkvæmt lögum sagt manni, sem er í vinnu og á launum hjá kirkjunni, til um hvaða verkefni hann á að sinna. Biskup var í fullum rétti að óska eftir því að hann sneri ekki aftur til þessara starfa þar sem búið er að ráðstafa þeim,“ segir Kristján, en á eftir að skoða hvort einhver viðurlög liggi við því að fara gegn óskum biskups.

Á rétt á að sækja um hvar sem er

Sem áður sagði verður prestakall Ólafs lagt niður nú um mánaðarmót og segir Kristján að það sem taki nú við sé ferli er varðar lög um opinbera starfsmenn.

„Starfið hans sem sóknarprestur í Grensásprestakalli er lagt niður og verður ekki til lengur. Þar af leiðandi, ef ekkert annað gerist, hættir hann nú um mánaðarmót sem prestur í Þjóðkirkjunni og fer á biðlaun ef hann fer ekki í annað starf. Það eru lögboðin biðlaun í lögum um opinbera starfsmenn. Það er enginn starfslokasamningur eða slíkt til hjá okkur,“ segir Kristján, og reiknar með að biðlaunaréttur Ólafs séu 12 mánuðir.

En á Ólafur afturkvæmt í starf sóknarprests, ef hann sækir um slíkt starf?

„Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt hvernig hann spilar úr stöðunni núna. Menn eiga alltaf einhvern möguleika, en það er ekki sáluhjálparatriði hvort menn séu sóknarprestar í tilteknu prestakalli. Annað hvort vilja menn starfa fyrir kirkjuna sína eða ekki. Hann hefur þegar fengið tiltal biskups Íslands einu sinni og það er ekki gott fyrir ferilinn að fá áminningar. En ef hann á annað borð heldur embættisgengi á hann auðvitað rétt á því að sækja um hvar sem er. Svo er það undir kjörnefndum komið í hverju prestakalli fyrir sig hvernig því er tekið,“ segir Kristján.

Eiga inni fyrirgefningu kirkjunnar

Kristján segir að biskupstofa eigi enn eftir að bregðast við niðurstöðu úrskurðar- og áfrýjunarnefndar kirkjunnar að Ólafur hafi gerst sekur um siðferðisbrot í starfi. Það mál sé enn óafgreitt.

„Það er forgangsmál hjá mér að beina athyglinni nú að þeim konum sem brotið var siðferðilega á. Við eyðum alltof miklum tíma í þann sem er uppvís að siðferðisbrotinu og munum nú snúa okkur að þeim sem brotið var á og hvernig þeim líður. Fyrir hönd kirkjunnar þurfum við að biðja þær fyrirgefningar,“ segir Kristján Björnsson, settur biskup Íslands, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert