Magnús Heimir Jónasson
„Þetta hafa ekki verið auðveldar 40 mínútur hjá þeim en samt virðingarvert við þá að hafa ekki anað inn,“ segir Magnús Smári Smárason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, um kollega sína í Noregi sem biðu í 40 mínútur fyrir utan heimili Gísla Þórs Þórarinssonar meðan honum blæddi út.
Sjúkraflutningamenn í Noregi þurftu að bíða eftir lögreglunni og máttu ekki fara inn í húsið. Hálfbróðir Gísla Þórs situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa skotið hann til bana á heimili Gísla í Mehamn í Finnmörku. Niðurstaða réttarmeinarannsóknar er að Gísla hafi blætt út eftir að hafa verið skotinn í lærið. Gísli var á lífi þegar lögregla kom á vettvang en ekki tókst að bjarga lífi hans.
Reglur um að sjúkraflutningamenn megi ekki fara inn í hús þar sem skotvopnum hefur verið beitt eru til þess að vernda þá í starfi. Í þessu tilviki þurfti lögreglan að koma frá Kjøllefjord sem er í rúmlega hálftíma akstursfjarlægð frá Mehamn.
Magnús Smári segir sambærilegar reglur að finna hér á landi. „Það er alveg rauður þráður í gegnum alla þjálfun og menntun sjúkraflutningamanna um öryggi á vettvangi. Ef öryggi er ekki tryggt er það fallatriði. Það er hlutverk lögreglunnar að tryggja vettvang áður við komum,“ segir Magnús meðal annars í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.