Samkvæmt vinningstillögu í hugmyndasamkeppni um framtíðaruppbyggingu á Orkuhússreit verða reistar 450 íbúðir auk atvinnuhúsnæðis í 4-9 hæða byggingum. Orkuhúsið er áfram á reitnum, en við bætist mikil byggð. Samkvæmt hugmyndinni verður ný þvergata lögð á milli Suðurlandsbrautar og Ármúla sem hefur vinnuheitið Orkumúli.
Í janúar gerðu Reykjavíkurborg og Reitir fasteignafélag viljayfirlýsingu um þróun og uppbyggingu lóðarinnar að Suðurlandsbraut 34 og Ármúla 31, svonefndum Orkuhúsreit. Var skipaður samráðshópur Reita og borgarinnar og í framhaldinu haldin lokuð hugmyndasamkeppni sem þrjár arkitektastofum var boðið að taka þátt í. Hugmynd Alark arkitekta var svo valin vinningstillagan af dómnefnd, en niðurstaðan var kynnt í dag.
Lóðin er 2,6 hektarar að flatarmáli og eru í dag fasteignir upp á 11 þúsund fermetra á lóðunum, 4.100 fermetrar við Suðurlandsbraut og 6.800 fermetrar við Ármúla.
Samkvæmt vinningstillögunni er svæðinu skipt upp í tvo hluta, sitt hvoru megin við svokallaðan Orkuás, þar sem fyrrnefndur Orkumúli yrði. Hvor hluti er svo byggður upp af tveimur byggingaráföngum. Í umsögn dómnefndar kemur fram að hugmyndin gæti fengið framsækið hlutverk sem „brautarstöð“ en samkvæmt áætlunum um legu borgarlínu mun hún liggja meðfram Suðurlandsbraut.
Þá er gert ráð fyrir að stúdentabyggð verði á reitnum og tekur dómnefndin vel í þá hugmynd. Samkvæmt vinningstillögunni er gert ráð fyrir að stærstur hluti bílastæða verði neðanjarðar
Nú þegar dómnefnd hefur lagt mat á framlagðar hugmyndir er gert ráð fyrir að eiginleg skipulagsvinna geti hafist og uppbyggingin útfærð nánar og tímasett. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir á lóðinni geti hafist innan tveggja ára frá því að breyting á deiliskipulagi hefur verið samþykkt.