Tveir farþega rútunnar sem fór út af Suðurlandsvegi við Hofgarða, skammt norðan við Fagurhólsmýri, lentu undir rútunni þegar hún valt út af veginum. Bændur í nágrenninu komu að með landbúnaðartæki og náðu að lyfta rútunni ofan af fólkinu svo hægt var að ná því undan.
Þetta staðfestir Grímur Hergeirsson, starfandi lögreglustjóri á Suðurlandi, við mbl.is. Farþegarnir tveir voru meðal þeirra fjögurra sem fluttir voru alvarlega slasaðir á Landspítalann, en alls voru 32 kínverskir ferðamenn í rútunni, auk bílstjóra. Fjöldahjálparstöð var sett upp á Kirkjubæjarklaustri, en unnið er að koma öllum á sjúkrahús.
Búið er að flytja 11 einstaklinga með flugvél Norlandair á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til skoðunar og aðhlynningar. Aðrir 11 fóru með flugi frá Höfn með flugvél Landhelgisgæslunnar til aðhlynningar á Sjúkrahúsinu á Akureyri og þyrla af dönsku varðskipi sem kom til aðstoðar hefur flutt einn til viðbótar á Landspítalann. Fyrir voru þeir fjórir sem alvarlegast voru slasaðir komnir þangað með þyrlu Gæslunnar.
Sjúkraflugvél frá Norlandair sem kom frá Akureyri og lenti á Fagurhólsmýri vinnur nú í því að flytja þá sem eftir eru á Selfoss. Reiknað með að vélin fari tvær ferðir þangað.
Búið er að opna Suðurlandsveg, en lögreglan er enn við störf á vettvangi. Rútan verður flutt á Selfoss í nótt til frekari rannsóknar, en búið er að gera ráðstafanir til þess að ná henni upp á veg.
Grímur segir of snemmt að segja til um tildrög slyssins á þessari stundu. Ágætt veður var á vettvangi þegar björgunaraðilar komu að, en eitt af því sem er til skoðunar er hvort vindstrengir, sem þekktir eru á þessu svæði, gætu hafa komið við sögu. Þá hefur Grímur engar upplýsinga um bremsuför á veginum eða slíkt sem gæti varpað ljósi á málið.
„Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi og tæknideild lögreglunnar á höfuðborgasvæðinu eru enn að vinna á vettvangi, ásamt fleirum, og eru að skoða allt í þaula,“ segir Grímur við mbl.is.