Fjórir alvarlega slasaðir á Landspítalann

Landspíalinn á von á fimm alvarlega slösuðum einstaklingum.
Landspíalinn á von á fimm alvarlega slösuðum einstaklingum. mbl.is/Árni Sæberg

Landspítali hefur verið settur á gult viðbúnaðarstig vegna rútuslyssins sem varð um klukkan 15 í dag á Suðurlandsvegi, við Hofg­arða, skammt norðan við Fag­ur­hóls­mýri. Staðfest er að 32 farþegar voru um borð, auk öku­manns, en rútan valt út af veginum. Fjórir eru alvarlega slasaðir.

Unnið er að því að koma þeim alvarlegu slösuðu á Landspítalann, en í tilkynningu frá spítalanum rétt eftir klukkan 17 var ekki vitað með vissu hvenær eða hvernig viðkomandi verða flutt á Landspítalann. Hvort það verði með sjúkrabifreið, þyrlu eða sjúkraflugi. Þyrla Landhelgisgæslunnar er komin á staðinn.

Eftir því sem næst verður komist eru ýmist 28 lítið eða minna slasaðir samkvæmt viðbragðsáætlun Landspítalans. Eru þeir til frekara mats og skoðunar.

„Vegna mikils álags sem viðbúnaðarstig hefur í för með sér biður Landspítali fólk með minniháttar áverka eða veikindi um að leita frekar til heilsugæslu eða Læknavaktar frekar en bráðadeildar í Fossvogi ef kostur er. Þetta atvik kemur ofan í þunga stöðu og þann mikla flæðisvanda, sem Landspítali glímir við í augnablikinu,“ segir í tilkynningu frá Landspítalanum.

Uppfært klukkan 17.55:

Grímur Hergeirsson, starfandi lögreglustjóri á Suðurlandi, segir vinnu enn í gangi á vettvangi þar sem björgunarfólk skipti tugum. Hópslysaáætlun var virkjuð og er enn í gangi þar sem unnið er að því að flytja slasaða af vettvangi. Aðspurður um aðstæður á slysstað segir Grímur að þær virðist ágætar.

„Það er eitthvað sem við rannsökum þegar búið er að bjarga þeim slösuðu. Þá rannsakar lögregla vettvanginn til þess að varpa ljósi á hvað gerðist,“ segir Grímur. Suðurlandsvegur verður lokaður eitthvað fram á kvöld og eru farþegar beðnir um að sýna þolinmæði.

„Hugsanlega verður takmarkaðri umferð hleypt í gegn, en vegurinn er þannig og aðstæður að það þarf að vera lokað svo hægt sé að klára vettvangsvinnuna. Fólk verður að sýna því tillitsemi, það er ekkert  við því að gera, og engin hjáleið þarna,“ segir Grímur Hergeirsson.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert