Haturstjáning grefur undan lýðræði og jaðarsetur minnihlutahópa. Með hatursorðræðu eru ákveðnir hópar beittir þöggun meðal annars með ofbeldi og eða hótun um ofbeldi, segir Eyrún Eyþórsdóttir, aðjúnkt í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri. Hún hefur upplifað það sjálf en hún varð fyrir slíkri hatursorðræðu vegna verkefnis sem henni var falið af hálfu lögreglunnar. Þetta kom fram í máli Eyrúnar á fundi um mörk hatursorðræðu, tjáningarfrelsi og meiðyrði á mannréttindadegi Reykjavíkurborgar í morgun.
Eyrún stýrði þróunarverkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu varðandi hatursglæpi og -tjáningu á árunum 2016 og 2017 en fljótlega eftir að það hófst fóru henni að berast hótanir.
Verkefnið sneri að ákveðnum hópum sem eiga undir högg að sækja. „Í rauninni frá því fyrstu fréttir birtust um að verkefnið hafi verið sett á laggirnar,“ segir Eyrún í samtali við mbl.is þegar hún er spurð út í hótanirnar og hvenær þær hafi byrjað að berast. Þar hafi hún verið persónugerð vegna pólitískra skoðana en hún var flokksbundin í Vinstri grænum. „Ég var jafnvel sökuð um að vera í pólitískum tilgangi en aldrei horft á að mér var falið þetta verkefni af mínum yfirmönnum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þetta byrjaði á alls konar ummælum á kommentakerfum, á ákveðinni útvarpsstöð og síðan var eins og sett hafi verið á mig eins konar veiðileyfi, þannig upplifði ég það,“ segir Eyrún.
Hún segir að mest hafi verið um hótanir á netinu, einkum samfélagsmiðlum en eins hafi hún fengið sendar hótanir. Íslenska þjóðfylkingin tilkynnti Eyrúnu til eftirlitsnefndar lögreglu og vildi meina að henni hafi verið komið í þetta starf af Vinstri grænum til þess að höggva á pólitískum andstæðingum.
Morðhótanir voru settar fram og mér tilkynnt um þær, segir Eyrún en hún var ítrekað til umfjöllunar á ýmsum miðlum. „Þetta veldur því að maður verður hugsi um hvað maður sé að gera. Hugsar áður en maður gerir eitthvað og veltir fyrir sér hver viðbrögðin verði. Þá verður þetta hamlandi í starfi þar sem þú átt að ganga fram,“ segir Eyrún.
Að hennar sögn hafi þetta haft mikil áhrif á hana og störf hennar. Hún hafi ítrekað velt fyrir sér hvað nú áður en hún gerði eitthvað. „Fyrir mitt leyti var verst þegar farið var að hringja heim og angra börnin mín. Þá hugsaði ég hingað og ekki lengra.“
Eyrún segist hafa upplifað óöryggi í kjölfarið og hugsanir komist að eins og hvað ef það er einhver þarna úti sem vill drepa mann eða áreita börnin manns. „Þetta reynir mikið á sálfræðilega því maður er alltaf var um sig,“ segir Eyrún.
Bæði Eyrún og Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Landsrétt og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, fjölluðu um hatursorðræðu í löggjöf og frumvarp sem er til meðferðar hjá Alþingi um breytingar á 233. grein almennra hegningarlaga, á mannréttindafundinum.
Hugtakið hatursorðræða á sér rætur í alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum. Felur í sér skyldu að mæla hatursorðræðu refsiverða, segir Davíð Þór en að hans sögn er blæbrigðamunur á hatursorðræðu og hatursáróðri. Er hægt að refsa fólki fyrir neikvæða umræðu í garð þeirra hópa sem minna mega sín?
Það er talið réttlætanlegt því ef hatursorðræða er viðurkennd á grundvelli tjáningarfrelsis sé verið að viðurkenna slíka orðræðu. Að hún eigi rétt á sér, segir Davíð Þór og vísar þar til alþjóðlegrar mannréttindaumræðu.
Í 233. gr. a lið almennra hegningarlaga segir: Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
Hatursorðræða er fordómafull og það er eitt af megineinkenni hennar. Hún er byggð á fáfræði, skeytingarleysi og er órökstudd, segir Davíð Þór. Hún lýsir hatri þess sem ummælin við hefur á þeim eða um þann sem ummælin beinast að. Hatrið getur birst í ólíkum myndum og er heildarheiti yfir ólíkar tilfinningar. Það þarf að beinast að ákveðnum hópum eða einstaklingum vegna þeirra atriða sem eru tiltekin í 233. grein laganna.
Davíð Þór segir næsta atriði vafalaust umdeilt en það er að tjáningin er opinber þannig að fordómar og hatursfull ummæli sem kunna að falla í einkasamtölum eða á lokuðum vefsvæðum í garð einstaklinga eða hópa vegna sérkenna þeirra er almennt ekki talin hatursorðræða.
„Hún þarf að vera opinber annars getur maður ekki haldið því fram að verið sé að breiða út fjandskap,“ segir Davíð Þór.
Í erindi sínu fjallaði hann um hvenær réttmætt sé að beita refsingum fyrir hatursorðræðu og setti þar fram fjögur stig. Það er allt frá því að leggja til þjóðarmorð eða sýna samkennd með þeim. Svo sem varðandi helförina og hryðjuverk. Það sé efsta stig hatursorðræðu.
Orðræða sem felur í sér hatursorðræðu sem er ógnandi sem markvisst hvetur til alvarlegs ofbeldis er annað stigið að sögn Davíðs en hann segir hvatningu hér vera lykilatriðið. Áróður er endurtekinn og fólk hvatt til mismunar.
Hatri lýst óbeint í garð einstaklinga og hópa sem lögunum er ætlað að vernda er þriðja stigið en fjórða og neðsta stigið er lögmæt hatursorðræða. Davíð Þór segir að flestir geti verið sammála um efstu stigin þrjú en greini á um fjórða stigið. Hvar mörkin fyrir refsiverðri háttsemi liggja.
„Þá á ég við það og spyr þeirrar spurningar hvort fólk geti tjáð sig með þeim hætti án þess að baka sér refsingu samkvæmt refsilögum? Hér vísa ég til tjáningar sem getur talist siðferðilega eða pólitískt ámælisverð,“ segir Davíð Þór og bætir við: Við getum verið sammála um að þessi umræða sé kjánaleg og heimskuleg og feli í sér fjandskap óbeint og svo framvegis en samt verðum við að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við, vegna þess að við teljum hana pólitískt eða siðferðilega ranga, teljum okkur hafa rétt til þess að refsa fólki fyrir að tjá sig með þessum hætti,“ segir Davíð Þór.
Frumvarp nú til meðferðar í þinginu sem þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á Andersen, lagði fram, um að þrengja ákvæði almennra hegningarlaga um hatursorðræðu. Þar er lagt til að bætt verði við 233. gr. a: „enda sé háttsemin til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun.“
Davíð Þór segir að þessi umræða sé til komin vegna breyttra aðstæðna – til að mynda er netið vettvangur fyrir tjáningu sem ekki var til staðar áður. Hann segir mikilvægt að fólk átti sig á þessu og vísar þar í hæstaréttardóma sem féllu vegna ágreinings um hinsegin-fræðslu í grunnskólum Hafnarfjarðar.
„Ég held að flestir sem eru hér inni þekki svo lítið til þess en þar notuðu ýmsir einstaklingar þessi tæki og tól, svo sem samfélagsmiðla og kommentakerfi á fjölmiðlavefsíðum og þess háttar, til þess að láta ýmis ummæli falla sem enginn ágreiningur er um að voru í það minnsta siðferðislega og pólitískt ámælisverð,“ sagði Davíð Þór á fundinum í morgun.
En hverjir voru þessir einstaklingar? spurði Davíð Þór. Hann segist hafa skoðað þessa dóma og skrifað um það grein. Það sem einkenni þennan hóp, segir Davíð Þór, en ítrekar að hann hafi ekki kynnt sér það til þaula, sé fólk með takmarkaða menntun, það hefur hvergi rými til að tjá sig með þessum hætti og almennt grunar hann að þetta sé fólk sem einfaldlega kann ekki að tjá sig með öðrum hætti þar sem það ræður ekki við umræðuna.
„Við erum að tala um fólk sem að í einhverjum skilningi er minnimáttar þegar kemur að almennri þjóðfélagsumræðu,“ segir Davíð Þór.
Hann segir að teknu tilliti til þess verði að spyrja sig hvort þetta fólk er hættulegt lýðræðinu og hættulegt öðrum eða hvort líta eigi á það sem geðvonskukast og einstök ummæli sem hafa engin raunveruleg áhrif í opinberri umræðu í þjóðfélaginu.
Hann segist telja að við verðum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við eigum að afmarka refsinguna við þá sem halda uppi skipulögðum málflutningi sem stefnir að ákveðnu markmiði og að skerða réttindi annarra.
Þetta frumvarp sem er í þinginu er túlkað sem útvíkkun tjáningarfrelsisins en um leið minnkun saknæmis. Hugsunin er sú að finna jafnvægi milli tjáningarfrelsis og hatursorðræðu sem er áróður sem er hættulegur lýðræðinu. Nái til þeirra sem láta ekki orðin tóm nægja heldur hvetja ítrekað til aðgerða gegn hópum og einstaklingum.
Eyrún er ekki sammála Davíð Þór hér og telur að með frumvarpinu sé verið að gera haturstjáningu löglega með útvíkkun á tjáningarfrelsi. Hún segir að 19 umsagnir séu við frumvarpið og af þeim séu aðeins tvær jákvæðar - frá Útvarpi Sögu og Blaðamannafélagi Íslands. Hún fjallaði sérstaklega um umsögn Blaðamannafélagsins en þar segir: Samþykkt frumvarpsins er að mati félagsins til þess fallin að styrkja tjáningarfrelsið í sessi.
Þar er eðlilega tekist á við fordóma með opinni umræðu. Það er besta leiðin til þess að kveða þá niður. Eftir sem áður varðar hatursáróður við lög, en tjáningarfrelsinu veitt meira rými svo sem vera ber í lýðfrjálsum löndum. Það er ekki hægt að kveða niður fordóma ef það er bannað að ræða um þá.
Eyrún segist velta fyrir sér hvernig það verði ef frumvarpið verður að lögum. Hver ætli sér að taka slaginn fyrir þá hópa og einstaklinga sem verða fyrir hatursorðræðunni. Þetta endi með því að enginn vilji taka slaginn meðal annars vegna hótana sem þeir verða fyrir vegna aðkomu að málinu.
Í pallborðsumræðum á fundinum fjallaði Bára Halldórsdóttir aðgerðasinni meðal annars um orðræðuna sem hún hefur þurft að þola eftir að hafa tekið upp samræður þingmanna á Klausturbar. Þetta hafi haft mikil áhrif á hennar líf og líðan. Þar skipti ekki öllu að þeir sem séu að tjá sig á kommentakerfum DV séu kannski óþekktir einstaklingar. Orðræðan er samt til staðar. Þar sé skrifað um að hún eigi tvo hunda og hafi farið oft til útlanda. Hún sé ekki alvöruöryrki og hvers vegna hún fái sér ekki vinnu. Hún eigi nóga peninga.
Bára segir að hún þurfi endalaust að sitja undir því að sanna sig sem öryrki og stöðugt áreiti taki sinn toll. „Ég kem kannski engu í verk heilu dagana vegna þessara einstaklinga,“ segir hún en það eru einkum sex einstaklingar sem stöðugt tjá sig um Báru og hennar tilveru.
Davíð Þór segir að það komist enginn í gegnum lífið án þess að fá á sig neikvæð ummæli. Að við stöndum frammi fyrir því í nafni tjáningarfrelsis að sitja undir þessu. Þar skipti engu að hann sé alfarið ósammála ummælunum. „Þetta fólk er ekki hættulegt lýðræðinu og þetta eru jaðarskoðanir,“ segir Davíð Þór. Hann segir að þó svo að það sé sami einstaklingurinn sem tjái sig ítrekað þurfi það ekki að þýða að um skipulagðan áróður sé að ræða.
Bára Huld Beck, blaðamaður á Kjarnanum, benti Davíð Þór á að með mörgum ummælum komi ákveðin normalerísering og ekki megi viðurkenna rasisma sem norm. Hvort sem slík umræða er refsiverð eða ekki verður að taka afstöðu gagnvart slíku og ekki leyfa allt.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna 78, spurði þátttakendur í pallborðinu hvað væri hægt að gera til þess að stöðva hatursorðræðu. Að sögn Eyrúnar er aldrei hægt að koma í veg fyrir hana alfarið en hægt sé að að loka umræðuvettvangi hennar og hafa eftirlit með henni.
Davíð Þór telur að ekki sé hægt að uppræta hatursorðræðu og þó svo kommentakerfum fjölmiðla sé lokað spretti upp nýir vefir. Hann segist telja að það þurfi að ala börn betur upp í lýðræðisumræðu. Að ræða hlutina æsingarlaust og af skynsemi við börn sé vænlegast til þess að koma breytingum í gegn.
Bára Huld segist telja að hatursorðræða sé samfélagslegt vandamál sem allt samfélagið þurfi að takast á við. Við þurfum að ræða við börnin okkar og við hvert annað. Við þurfum að hlúa betur að samfélaginu sjálfu og búa til samfélag þar sem fólki líður betur í stað þess að fá útrás fyrir reiði sína á þennan hátt, segir hún.