Útskriftarnemendur við Menntaskólann á Akureyri munu halda áfram að kveðja skólann sinn í lok skólagöngu, en það verður framvegis með öðrum hætti eftir alvarlegt slys sem átti sér stað í svokallaðri dimmiteringu útskriftarnema í gær.
Hefð hefur verið í skólanum að útskriftarnemar ferðist um bæinn á skreyttum vögnum aftan í dráttarvélum, nokkuð sem tíðkast hefur víða um land. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu klemmdist stúlka þegar vökvaknúinni loku á malarflutningavagni var lokað þegar vagninn var kyrrstæður. Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur gefið út að óheimilt verði að nota slíka vagna í þessum tilgangi í kjölfar slyssins.
„Nú þarf að halda utan um þá sem eru í áfalli eftir þetta hörmulega slys,“ segir Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, í samtali við mbl.is. Samkvæmt því sem RÚV hefur eftir lögreglu var stúlkan flutt til Reykjavíkur með sjúkraflugi með alvarlega áverka á andliti, en þó ekki sögð í lífshættu.
Jón Már segir nemendur og starfsfólk skólans slegið, standi þétt saman og þakki fyrir að stúlkan sé ekki sögð í lífshættu.
„Þetta var mjög alvarlegt slys. En eins og gerist í áföllum þá þjappast fólk saman líka. Við fengum áfallateymi Rauða krossins til þess að koma og erum með skólasálfræðing sem heldur betur sannar mikilvægi sitt á svona erfiðum tímum. Starfsfólk skólans hefur staðið sig vel í þessu, ásamt foreldrum og öllum sem að þessu hafa komið,“ segir Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri.