Orðum fylgir ábyrgð

Bára Halldórsdóttir, Bára Huld Beck, Davíð Þór Björgvinsson og Eyrún …
Bára Halldórsdóttir, Bára Huld Beck, Davíð Þór Björgvinsson og Eyrún Eyþórsdóttir tóku þátt í pallborðsumræðum en Arnar Snæberg Jónsson var fundarstjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Orð hafa merkingu og þeim fylgir ábyrgð. Þessi ábyrgð er bakhliðin á tjáningarfrelsinu, segir Bára Huld Beck, blaðamaður á Kjarnanum, en hún tók þátt í pallborðsumræðum um hatursorðræði í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Þar kom meðal annars fram í erindi Eyrúnar Eyþórsdóttur, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, að henni hafi borist morðhótanir og hótanir af ýmsu tagi þegar hún vann að verkefni á vegum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem sneru að hatursorðræðu. Þetta hafi haft mikil áhrif á hana og starf hennar. Nánar verður fjallað um erindi Eyrúnar á mbl.is síðar í dag.

Eitt af því sem rætt var um á fundinum sem haldinn var í tilefni mannréttindadags Reykjavíkurborgar er hvenær hatursorðræða telst saknæm og hvenær þetta er spurning um tjáningarfrelsið.

Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Landsrétt, segir að þar skipti miklu máli hver það er sem viðhefur ummælin. Hvort viðkomandi hafi áhrif í samfélaginu eður ei. Bára Halldórsdóttir, aktívisti, var ekki á sama máli þar og vísar í ummæli sem falli um hana í kommentakerfi DV. Þar séu ákveðnir einstaklingar sem tjái sig um allar fréttir henni tengdar sem og um fréttir tengdar öryrkjum. 

„Ég lít þannig á að viðkomandi sé kominn með ákveðið vald,“ sagði Bára Halldórsdóttir í pallborðsumræðum á fundinum. Hún segist ekki lesa sjálf ummælin heldur séu þau lesin fyrir hana því þetta hafi mikil áhrif á líf hennar og líðan. 

Ítarlega verður fjallað um fundinn á mbl.is síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka