Borgarráð samþykkti í dag að styrkja tónlistarhátíðina Secret Solstice um átta milljónir króna á þeim forsendum að hátíðin höfði meira til fjölskyldufólks en áður hefur verið. Rennur styrkurinn upp í ógreidda skuld aðstandenda hátíðarinnar við Reykjavíkurborg.
Hátíðin verður þar með haldin í sjötta sinn, en mun standa einum degi styttra í ár og fara fram 21.-23. júní. Samkvæmt drögum að samningi sem borgarráð samþykkti kemur fram að dagskrá verði að vera lokið klukkan 23.30 á kvöldin og mikil áhersla verður lögð á forvarnir og öryggismál.
Tvísýnt var um tíma um stöðu hátíðarinnar gagnvart Reykjavíkurborg og hátíðin var sögð skulda borginni 10 milljónir. Nýir eigendur hafa þó tekið við hátíðinni og er undirbúningur á svæðinu þegar hafinn.