Um þrjátíu mínútur tók að losa þá tvo sem voru fastir undir rútunni sem fór út af Suðurlandsvegi fyrr í dag. Auk þeirra fjögurra sem voru fluttir strax á Landspítalann verða þrír minna slasaðir einnig fluttir þangað.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Aðgerðastjórn almannavarna var virkjuð í stjórnstöð á Selfossi og tóku forstjóri, framkvæmdastjóri hjúkrunar, mannauðsstjóri og yfirmenn sjúkraflutninga hjá HSU virkan þátt í að skipuleggja aðgerðir stofnunarinnar ásamt teymi aðgerðarstjórnarinnar
Samvinna lögreglu, björgunaraðila, slökkviliða, HSU og fleiri aðila í aðgerðarstjórn gekk mjög greiðlega fyrir sig, að því er segir í tilkynningunni sem Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU, skrifar undir.
Um hálfsjöleytið í kvöld var búið að flokka áverka hinna slösuðu og ákveða flutningamáta á sjúkrahús. Aðgerðarstjórn almannavarna á Suðurlandi er einnig í beinu sambandi við stjórnstöð almannavarna ríkislögreglustjóra.
Læknir, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sjúkraflutningamenn og björgunarfólk var fyrst á vettvang frá HSU á Höfn í Hornafirði og Kirkjubæjarklaustri til að koma hinum slösuðu hjálpar og aðhlynningar.
Söfnunarsvæði slasaðra var sett upp á Litla-Hofi þar sem lagt var mat á ástand og áverka hinna slösuðu. Læknir heilsugæslunnar á Höfn var aðhlynningarstjóri á vettvangi og varðstjóri sjúkraflutninga HSU var flutningsstjóri á vettvangi.
Útbúin var móttaka á bráðamóttökum HSU á Selfossi og auk þess sett um skoðunar- og meðferðarrými í opinni móttöku og biðstofu sjúkrahússins á Selfossi til að taka við 16 slösuðum einstaklingum.
„Samhæfing og heildarstjórn aðgerða hefur gengið mjög vel í dag og í samræmi við verklag aðgerðarstjórnar. Greiðlega gekk að flytja hjálparlið á slysstað og veita þeim slösuðu fyrstu hjálp og aðhlynningu og bráðaaðstoð. Samskipti innan heilbrigðisumdæmis Suðurlands gekk afar vel til að virkja heilbrigðisstarfsmenn á starfsstöðvum HSU í samvinnu með lögreglu, slökkviliði og björgunaraðilum. Verið er að ljúka við að flytja þá minnst slösuðu á sjúkrahús,“ segir í tilkynningunni.