Alþýðusamband Íslands hefur ákveðið að kæra framkvæmd íslenskra dómstóla til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, í ljósi dóms Evrópudómstólsins sem féll fyrr í vikunni.
Málið snýst um reglur um vinnutíma launafólks og vikulega frídaga.
„Tilhneiging íslenskra dómstóla, að flytja á herðar launamanna ábyrgð á því að reglur um hámarksvinnutíma og vikulega frídaga séu virtar og ófullnægjandi innleiðing tímatilskipana Evrópusambandsins í því efni, geta í ljósi dóms Evrópudómstólsins frá 14. maí sl. falið í sér brot á EES-samningnum. ASÍ hefur ákveðið að setja framkvæmdina hér á landi í kæruferli til ESA,“ segir í tilkynningu frá ASÍ.
„Sú venjuhelgaða regla hefur um langt skeið gilt hér á landi að þegar laun starfsmanna hafa verið vanreiknuð geti kröfur um leiðréttingu glatast vegna svokallaðs tómlætis.“
Fram kemur að í ljósi „afdráttarlausrar túlkunar“ Evrópudómstólsins frá 14. maí verði að telja verulegar líkur á að túlkun íslenskra dómstóla á vinnutímareglum um uppsafnaðan frítökurétt og vikulega frídaga, geti verið andstæð þeim tilskipunum sem hafi verið í gildi hérlendis á grundvelli EES-samningsins.