Fjórir ferðamannanna lagðir inn á SAk

Tíu kínversku ferðamannanna voru fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri. Sex …
Tíu kínversku ferðamannanna voru fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri. Sex þeirra voru útskrifaðir í gær, en fjórir voru lagðir inn. mbl.is/Jón Pétur

Fjórir af þeim tíu ferðamönnum, sem fluttir voru á Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) eftir að rút­an fór út af á Suður­lands­vegi í gær, voru lagðir inn á sjúkrahúsið. Þetta segir Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, í samtali við mbl.is.

33 voru í rút­unni er slysið varð. Flest­ir sluppu með skrám­ur en fjór­ir liggja al­var­lega slasaðir á Land­spít­al­an­um og þá voru líkt og áður sagði tíu fluttir til Akureyrar til aðhlynningar.

„Enginn þeirra var alvarlega slasaður,“ segir Sigurður um fjórmenningana sem voru á Sjúkrahúsinu á Akureyri í nótt og kveður þetta aðallega hafa verið gert til eftirlits. „Við eigum von á því að þau nái sér fljótlega,“ bætir hann við og segir skýrast í dag hvort einhverjir þeirra verði útskrifaðir í dag. Enginn þeirra sé þó líklegur til að þurfa á langri sjúkrahúsdvöl að halda.

Sjúkrahúsið auglýsti eftir túlki í gær sem væri bæði íslensku- og kínverskumælandi, en ferðamennirnir 31 og túlkurinn sem lentu í slysinu voru allir kínverskir.

Sigurður segir einn túlk sem talaði bæði íslensku og kínversku hafa komið á spítalann í gær og hann hafi aðstoðað. „Við auglýstum þó áfram þar sem þetta voru það margir til að byrja með,“ bætir hann við. Í morgun komu síðan fulltrúar frá kínverska sendiráðinu á sjúkrahúsið og þeir séu mjög vel enskumælandi og því hafi dregið verulega úr tungumálavandræðunum.

Rauði krossinn sá um að finna húsaskjól í nótt fyrir hina sex ferðamennina sem útskrifaðir voru af sjúkrahúsinu í gær. Sigurður segir þá ýmist hafa verið nánast ómeidda, eða meiðsl þeirra ekki þess eðlis að innlagnar væri þörf.

„Okkur þótti samt rétt, þar sem óljóst var í byrjun hvað amaði að þeim, að fara með þau í hefðbundna leið í gegnum bráðamóttökuna og gera almenna rannsókn á þeim áður en ákvörðun var tekin um innlögn eða ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert