Hissa á að trúnaður væri rofinn

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var beðinn um trúnað vegna þessa máls og ég hef hugsað mér að halda þann trúnað,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um þá niðurstöðu siðanefndar Alþingis að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hafi brotið gegn siðareglum alþingismanna með ummælum um akstursgreiðslur þingsins til Ásmundar.

Samkvæmt heimildum mbl.is var óskað eftir því við aðila málsins að trúnaður væri haldinn um meðferð þess á vettvangi forsætisnefndar Alþingis þar til niðurstaða nefndarinnar lægi fyrir. Fréttablaðið fjallaði um málið fyrst í morgun þar sem blaðamaðurinn Aðalheiður Ámundadóttir ræddi við Þórhildi Sunnu um það. Þórhildur hefur harðlega gagnrýnt niðurstöðu siðanefndarinnar og hyggst óska eftir því að niðurstaðan verði endurskoðuð.

„Ég ætla bara að bíða eftir niðurstöðu forsætisnefndar og hyggst ekki segja neitt efnislega um málið fyrr,“ segir Ásmundur. Spurður viðbrögð við frétt Fréttablaðsins þar sem fyrir lægi að áðurnefndur trúnaður hefði ekki verið haldinn segist Ásmundur mjög hissa á því að trúnaður hefði ekki verið virtur í þeim efnum. Sjálfur ætli hann að halda trúnaðinn.

„Það var óskað eftir því í bréfi frá forsætisnefnd að trúnaðar yrði gætt fram yfir afgreiðslu forsætisnefndar og ég ætla mér að virða það,“ áréttar Ásmundur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert