Árið í ár er metár í framkvæmdum í Reykjavík og mun Reykjavíkurborg fjárfesta í innviðum og þjónustu fyrir 20 milljarða á þessu ári og fyrir 75 milljarða á næstu fimm árum. Þá mun samstæða Reykjavíkurborgar, þ.e. Strætó, Sorpa, Félagsbústaðir, Faxaflóahafnir, Orkuveitan og önnur fyrirtæki, fjárfesta fyrir 196 milljarða á næstu fimm árum.
Þetta er meðal þess sem fram kom á árlegum yfirlitsfundi borgaryfirvalda um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í borginni sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri stiklaði þar á stóru um þau uppbyggingarverkefni sem eru að taka á sig mynd í borgarumhverfinu, sem og verkefnum sem enn eru á hugmyndastigi.
„Heildarmyndin teygir sig um alla Reykjavík og fjölbreytnin eykst milli ára, mér finnst það standa upp úr,“ segir Dagur í samtali við mbl.is, aðspurður hver helsta breytingin sé á uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í borginni á milli ára.
Uppbygging atvinnuhúsnæðis í borginni hefur aukist jafnt og þétt frá 2014, þegar samþykkt byggingarleyfi spönnuðu rúma 49 þúsund fermetra, til 2018 þegar samþykkt byggingaleyfi náðu yfir rúma 174 þúsund fermetra. Inni í tölunum fyrir árið í fyrra er að vísu samþykkt byggingarleyfi fyrir nýja meðferðakjarna Landspítala, sem er tæpir 77 þúsund fermetrar. „Við erum stödd á mesta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar,“ segir Dagur.
Til að koma til móts við atvinnurekendur munu borgaryfirvöld til að mynda lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði úr 1,65% í 1,60% fyrir lok kjörtímabils.
„Það hafa verið miklar breytingar, verð hafa verið að hækka, en þó skulum við muna það að fermetraverð á atvinnuhúsnæði er ekki ennþá komið upp í það sem það var hæst fyrir hrun, ólíkt íbúðahúsnæði,“ segir Dagur.
Þrátt fyrir ýmsar breytingar verður staðið við lækkunina, að sögn borgarstjóra, sem ákveðin var við gerð samstarfssáttmála borgarstjórnar í júní 2018. Lækkunin fer fram í tveimur skrefum, fyrst niður í 1,63% og á næstu þremur árum niður í 1,60%.
Dagur segir að þó svo að umræðan hafi einkennst af fréttum af hótelbyggingum þá sýni tölurnar að fjölbreytnin sé mikil, þó vissulega sé einnig verið að fjárfesta kröftuglega í hótelum og gistirýmum.
Um 35 þúsund fermetrar af samþykktu byggingarleyfi fyrir árið í fyrra var undir gistiþjónustu, samanborið við um 12 þúsund 2017 og 30 þúsund 2016. Þessa stundina eru um 800 hótelherbergi í byggingu á sjö stöðum í borginni, þ.e. á Landsímareit, Austurhöfn, Vegamótastíg, Lækjargötu, Laugavegi 55 og 95-99 og Grensásvegi. Dagur segir líklegt að þessi verkefni klárist á næstu tveimur árum.
„Hvert sem litið er er mjög mikið í gangi og þá erum við ekki búin að nefna miðborgina einu sinni, sem er að ganga í endurnýjun lífdaga,“ segir Dagur og nefnir í því samhengi aukna grósku í uppbyggingu hjá þekkingartengdum fyrirtækjum. „Þá getum við nefnt Landspítalann en líka þekkingarsetrið Grósku við Vísindagarða við Háskóla Íslands. Svo erum við að sjá Gufunesið koma inn af miklum krafti með kvikmyndaver og kjörlendi fyrir skapandi greinar.“
Hvað varðar miðborgina sjálfa segir Dagur stefnu borgarinnar vera að stækka miðborgarsvæðið og auka atvinnuhúsnæði á jarðhæð. „Þannig eiga fleiri að fá tækifæri til að spreyta sig í atvinnurekstri, sem virðist vera að ganga eftir, þó svo að við höfum ekki séð leiguverð fara niður.“
Dagur segir borgaryfirvöld leggja áherslu á að skipuleggja mannlífsborg. „Sem og lífsgæðaborg, þar sem borgin leggur áherslu á torgin og svæðin milli húsanna og mér sýnist uppbyggingaraðilar mjög víða vera að leggja mjög mikið í hönnun og hugkvæmni, til að gera þetta snjallt og fallegt.“ Markmiðið með aðalskipulagi borgarinnar, að sögn Dags, er eftir allt saman að klára að byggja höfuðborg.