Ósammála niðurstöðu siðanefndar

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingflokkur Pírata ber fullt traust til Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingflokksformanns flokksins, þrátt fyrir að siðanefnd Alþingis hafi komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi brotið gegn siðareglum þingmanna með ummælum sem hún lét falla um akstursgreiðslur til Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Þetta segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is, en Þórhildur hefur óskað eftir því við forsætisnefnd Alþingis að því verði beint til siðanefndarinnar að endurskoða niðurstöðu sína. Telur Þórhildur að niðurstaðan sé byggð á röngum forsendum. Þannig hafi ekki verið tekið tillit til sönnunargildis ummælanna.

„Ef þetta álit stendur þá hlýtur maður að velta fyrir sér hvernig þingmenn eigi að tjá sig ummeinta spillingu eða meintra brota annarra þingmanna,“ segir Helgi Hrafn, ennfremur en siðanefndin gerði einkum athugasemd við þau ummæli Þórhildar Sunnu að um rökstuddan grun væri að ræða um að Ásmundur hefði brotið gegn lögum.

Helgi segir rökréttu niðurstöðuna vera þá að þingmenn eigi ekki að tala um neitt sem gæti látið alþingismenn líta illa út. „Afleiðing af því er að við getum ekki fjallað um misbresti á Alþingi. Þetta er galið.“ Þórhildur Sunna hafi einfaldlega verið að kalla eftir því að rannsókn færi fram á akstursgreiðslum Alþingis til Ásmundar.

Spurður áfram hvort siðanefndin geti kannað sannleiksgildi ummælanna í ljósi þess að verið sé að ræða hvort hegningarlagabrot hafi verið framið sem heyri undir lögreglu að rannsaka ítrekar Helgi fyrri ummæli um að rökrétt afleiðing þess að kanna ekki lögmætið sé að þingmenn eigi ekki að ræða misbresti Alþingis eða alþingismanna.

Spurður hvort ekki hefði verið mögulegt að kalla eftir rannsókn á máli Ásmundar án þess að nota orðalagið „rökstuddur grunur“ sem siðanefnd Alþingis gerir athugasemd við segir hann: „Það er ekkert að þessu orðalagi.“ Spurður hvort hann sé sem sagt ósammála niðurstöðu siðanefndarinnar segir Helgi: „Nei ég er ekki sammála henni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert