Mikilvægt er að siðanefnd Alþingis meti í hvaða samhengi og við hvaða aðstæður ummæli sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, lét falla um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, vegna akstursgreiðslna þingsins til hans sem og að meta sannleiksgildi ummælanna við mat á því hvort þau hafi brotið gegn siðareglum þingmanna.
Þetta segir Þórhildur Sunna í samtali við mbl.is en siðanefnd Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að ummæli hennar um Ásmund, einkum ummæli um að rökstuddur grunur væri uppi um refsiverða háttsemi hans, bryti gegn siðareglunum. Þessu er Þórhildur Sunna ósammála og hyggst óska eftir því við forsætisnefnd Alþingis að málið verði tekið til endurskoðunar hjá siðanefndinni með hliðsjón af athugasemdum hennar.
Þórhildur Sunna segir að ekki sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu að hún hafi brotið gegn siðareglunum nema fyrst verði kannað hvort ummæli hennar eigi við rök að styðjast. Forsætisnefnd hafi hins vegar vísað frá erindi um að mál Ásmundar og síðan beint því til siðanefndar að kanna ekki sannleiksgildi ummæla hennar í þeim efnum.
Þannig sé fyrirkomulagið í kringum siðareglur alþingismanna gallað að mati Þórhildar Sunnu. Einkum vegna þess að forsætisnefnd hafi of mikla aðkomu að því að hennar áliti. Þannig geti pólitískir fulltrúar haft áhrif á það með hvaða hætti siðanefnd fjalli um einstök mál. Upphaflega hugmyndin hefði verið að siðanefnd úrskurðaði í málum.
Spurð hvort hún muni virða afgreiðslu málsins verði niðurstaða siðanefndar ekki endurskoðuð segist hún ætla byrja á því að senda greinargerð til forsætisnefndar vegna málsins og sjá hvað forsætisnefnd geri. „Út frá því mun ég taka mína afstöðu.“ Samkvæmt upplýsingum frá Alþingi verður málið tekið fyrir í forsætisnefnd á mánudaginn.