Vagnstjóri fékk flogakast undir stýri

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Bilstjóri strætisvagns á vegum Strætó bs. sem hafnaði utan vegar við Álafosskvos í Mosfellsbæ klukkan hálf tvö í dag, fékk flogakast við akstur. Guðmundur heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó staðfestir þetta.

Vísir greindi fyrst frá. Vagnstjórinn missti meðvitund en var kominn aftur til meðvitundar þegar hann var fluttur á slysadeild. Þrír farþegar voru í vagninum en einn þeirra var fluttur á slysadeild. Áverkar bílstjórans og farþegans eru minniháttar. 

Ekki vitað um flogaveiki

Vagninn rann talsverða vegalengd áður en hann stöðvaðist. „Þetta er útivistarsvæði og það er bara mildi að það hafi enginn verið þarna á ferðinni,“ segir Guðmundur. Hann veit ekki um afdrif farþeganna sem fóru ekki á slysadeild en brýnir á því að ef þeir vilji hafa samband vegna trygginga eða áfallahjálpar þá séu þeir hvattir til þess að hafa samband við þjónustuver Strætó. 

Guðmundur segist ekki vita hvort vagnstjórinn sé flogaveikur en flogaveikir mega ekki keyra Strætó. „Það var enginn meðvitaður um einhverja svoleiðis sögu og enginn sem vissi af því en svona getur auðvitað þróast á fullorðinsárunum. Lögreglan staðfesti það að þetta hafi verið flogakast. Hann fer væntanlega í skoðanir núna og svo þurfum við að taka stöðuna á honum síðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert