Fjármálaráðherra gerir kröfu um að fimm svæði í Barðastrandarsýslu verði úrskurðuð þjóðlendur. Meðal þeirra eru Vatnsfjörður og Bæjarbjarg. Óbyggðanefnd skorar á þá sem telja til eignarréttinda á þessum svæðum að lýsa kröfum sínum á móti.
Kröfur ríkisins ná til fimm svæða í Vesturbyggð og Reykhólahreppi sem nefnd eru Hvannahlíð, Skálmardalsheiði, Auðshaugsland, Vatnsfjörður og Bæjarbjarg, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Vatnsfjörður er langstærsta svæðið og nær þjóðlendukrafan yfir meginhluta af friðlandinu sem nú er skilgreint. Hvannahlíð er í Þorskafirði og Auðshaugsland í Kjálkafirði. Skálmardalsheiði er á hálendinu, á móti Ísafjarðardjúpi. Bæjarbjarg er austasti hluti Látrabjargs, kennt við Saurbæ á Rauðasandi enda var það í eigu Bæjarkirkju sem þar er.