„Góð tilfinning að vera treyst“

„Þriðja markmiðið mitt var að koma okkur á alþjóðlega óperukortið …
„Þriðja markmiðið mitt var að koma okkur á alþjóðlega óperukortið og það er að ganga eftir,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri Íslensku óperunnar. mbl.is/Hari

„Það er óhætt að segja að þetta séu ákveðin persónuleg tímamót,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir sem nýverið var endurráðin óperustjóri Íslensku óperunnar til næstu fjögurra ára. Ítarlegt viðtal birtist við hana í Morgunblaðinu síðasta fimmtudag. 

„Það er afar góð tilfinning að vera treyst fyrir öðru tímabili hjá þessari stofnun sem er eitt af flaggskipum listsköpunar og menningar á Íslandi. Erlendis er talað um tvær gerðir listrænna stjórnenda sem á ensku nefnast „campers“ og „farmers“ sem þýða mætti sem ferðamenn og bændur. Ferðamaðurinn tjaldar til einnar nætur og getur gert mjög flotta hluti, en eftirlætur öðrum að taka til eftir sig. Bóndinn, sem ég vil frekar líkjast, gefur sér tíma til að skoða aðstæður, taka jarðvegssýni, endurskipuleggja eftir þörfum, sá vandlega og hafa síðan þolinmæði til að bíða eftir uppskerunni. Eftir undirbúningsvinnu síðustu ára líður mér núna eins og að Íslenska óperan sé að byrja að blómstra eins og hún hefur burði til. Það er gríðarlega dýrmætt að fá að fylgja eftir eigin breytingum og nýta meðbyrinn sem kemur eftir þetta breytingaskeið síðustu ára.

Á slíkum tímamótum er einnig mikilvægt að rýna í það hvernig kraftar manns nýtast best og þá finnst mér rétti tímapunkturinn að endurnýja stefnumótunina í góðri samvinnu við hagaðila. Stefnumótun er mikilvæg ekki aðeins til að vita að hverju skuli stefnt heldur ekki síður hvað eigi ekki að gera,“ segir Steinunn Birna og bendir á að flestum þeirra markmiða sem sett voru í stefnumótun Íslensku óperunnar 2016 hafi þegar verið náð.

„Ég setti mér þrjú persónuleg markmið þegar ég tók við sem óperustjóri árið 2015. Í fyrsta lagi vildi ég styrkja enn frekar listrænan metnað og gefa engan afslátt af fagmennsku því gæði og innihald listviðburðanna eru mestu verðmæti hverrar listastofnunar. Í öðru lagi innleiða stöðugan rekstur án taps,“ segir Steinunn Birna og nefnir að annað starfsárið í röð verði rekstrarafkoma Íslensku óperunnar jákvæð.

Þurfti nýtt box fyrir óperuna

Hverju þakkar þú það?

„Það er margt sem spilar saman, en fyrst og fremst helgast þetta af því að sýningarnar okkar hafa fengið góðar viðtökur og aðsókn. Það eru mestu verðmætin, því þá fer sköpunarhjólið af stað. Síðan hef ég endurskoðað allar rekstrarforsendur stofnarinnar. Mikilvægasti liðurinn í því sambandi var endurskoðun á samningi Íslensku óperunnar við Hörpu sem eykur sveigjanleika okkar. Nú getum við valið sýningarstaði sem hentar best hverju verki,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að það geti ekki allar óperur notið sín í Eldborg.

„Það gefur okkur mikinn meðbyr inn í næsta tímabil. Áður en samningurinn var endurskoðaður fóru um 60% af tekjum stofnunarinnar í fastan rekstrarkostnað, sem var auðvitað alltof hátt hlutfall. Meginhlutinn verður að fara til listframleiðslunnar ef vel á að vera,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að til standi að lækka rekstrarkostnað Íslensku óperunnar enn frekar til að geta sett meira fé í sjálfa listsköpunina.

„Það skal alveg viðurkennast að reksturinn hefur verið erfiður á umliðnum árum, sem helgast af því að á svipuðum tíma og Íslenska óperan fór úr eigin húsnæði í Gamla bíói í leiguhúsnæði í Hörpu fékk hún mestan niðurskurð allra listastofnana í kjölfar bankahrunsins. Í stað þess að gera ráð fyrir að Íslenska óperan fengi hærra framlag til að mæta hærri rekstrarkostnaði í Hörpu var skorið niður. Afleiðingin var sú að Íslenska óperan neyddist til að nota söluandvirði Gamla bíós til að borga með sér í Hörpu,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að við þær aðstæður hafi stofnunin verið í sífelldri lífshættu. „Það er ekki góð forskrift fyrir listsköpun að þurfa alltaf að vera að berjast fyrir lífi sínu. Þegar ég tók við sem óperustjóri gerði ég mér grein fyrir að ég þyrfti ekki bara að hugsa út fyrir boxið heldur þyrfti ég nýtt box. Ég fór bjartsýn í það verkefni sem hefur skilað sér í fjölgun tekjustofna, endurskipulagningu rekstursins, fleiri áhorfendum og aukningu á framlagi ríkisins, þótt skerðingin eftir bankahrunið sé ekki öll komin til baka að raunvirði.“

Í ljósi þess að tekist hefur að snúa rekstrinum í plús óttast þú ekkert að ríkið minnki þá framlög sín aftur sem því nemur?

„Nei, þvert á móti finn ég fyrir auknum stuðningi. Góð rekstrarafkoma sýnir að við erum ábyrg í okkar rekstri og förum vel með það fé sem okkur er úthlutað. Ég tel líklegra að ráðuneytið verðlauni okkur fyrir það en hið gagnstæða,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að bakland Íslensku óperunnar hafi með markvissum aðgerðum verið stækkað á umliðnum misserum með auknu sjálfsaflafé, m.a. í formi styrkja frá fyrirtækjum og einkaaðilum.

Óperan Brothers eftir Daníel Bjarnason verður opnunarsýningu Armel-óperuhátíðarinnar í Búdapest …
Óperan Brothers eftir Daníel Bjarnason verður opnunarsýningu Armel-óperuhátíðarinnar í Búdapest í júlí, en sjónvarpsstöðin ARTE hefur sýnt því áhuga að streyma beint frá sýningunni. Ljósmynd/Jóhanna Ólafsdóttir

Vill laða að erlenda þekkingu

„Þriðja markmiðið mitt var að koma okkur á alþjóðlega óperukortið og það er að ganga eftir. Þó við séum að vinna lókalt er okkur mikilvægt að hugsa ávallt glóbalt,“ segir Steinunn Birna og bendir í því samhengi á að það sé mikill heiður fyrir Íslensku óperuna að vera boðið að sýna Brothers eftir Daníel Bjarnason sem opnunarsýningu Armel-óperuhátíðarinnar í Búdapest í júlí, en sjónvarpsstöðin ARTE hefur sýnt því áhuga að streyma beint frá sýningunni.

„Samhliða þessu erum við að ganga frá samningum við nokkur erlend óperuhús sem vilja leigja af okkur uppfærsluna okkar á La Traviata sem eru gleðitíðindi. Það er mikill heiður fyrir okkur að Íslenska óperan geti framleitt óperur sem erlend óperuhús sækjast eftir að fá til sín. Samtímis felst í þessu nýr tekjustofn fyrir okkur þar sem tekjurnar koma á móti þeirri fjárfestingu sem liggur í að gera leikmynd og búninga fyrir stóra óperuuppfærslu. Ég legg höfuðáherslu á að Íslenska óperan sé listrænn gerandi í eigin starfsemi, sem er ekki sjálfgefið. Erlendis þar sem óperuhús setja sum upp sjö til tíu uppfærslur á ári eru kannski fjórar þeirra frumskapaðar, tvær eru gamlar að rata aftur á svið og síðan tvær leigðar frá öðrum óperuhúsum.

Elmar Gilbertsson og Herdís Anna Jónasdóttir í hlutverkum sínum í …
Elmar Gilbertsson og Herdís Anna Jónasdóttir í hlutverkum sínum í La Traviata. Íslenska óperan er að ganga frá samningum við erlend óperuhús sem vilja leigja íslensku sýninguna. Ljósmynd/Jóhanna Ólafsdóttir

Sumir héldu að uppfærslan okkar á La Traviata væri leigð sýning að utan, sem hún var sannarlega ekki. Kannski var það af því að leikstjórinn og hönnuðir voru erlendir, en það er mín leið til að laða að ákveðna þekkingu til okkar og hækka gæðastuðulinn. Með fullri virðingu fyrir okkar frábæra innlenda listafólki þá er þetta mjög sérhæft listform sem þarfnast mikillar reynslu. Við leggjum eftir sem áður áherslu á að íslenskir söngvarar séu alltaf í miklum meirihluta í okkar uppfærslum enda eru íslenskir söngvarar erfðaefni Íslensku óperunnar,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að það færist í vöxt að óperuhús taki sig saman og samframleiði óperur og móti þá uppfærsluna saman frá grunni.

Brothers er gott dæmi um slíkt samstarf, en þar framleiddum við óperuna í samstarfi við Jósku óperuna og komum sameiginlega að listrænum ákvörðunum. Mér finnst slíkt samstarf mjög jákvætt, því þá er tryggt að verkið fari víðar og eigi möguleika á lengri framtíð. Meðan við erum ekki með fleiri uppfærslur á ári en raunin er myndi mér ekki líða vel að leigja sýningar frá útlöndum og hafa ekkert um listræna innihaldið að segja. Hver einasta uppfærsla okkar, líka þegar verið er að vinna með eldri óperuverk, er ný sköpun þar sem verið er að búa til nýtt konsept og nýja uppfærslu. Ég hef reynt að fara þá leið að taka stórar uppfærslur sem passa fyrir Eldborg og gera þær glæsilegar en um leið tímalausar, þannig að fólk tengi sig við efniviðinn, en koma að nýsköpuninni með pöntun nýrra verka,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að hún reyni sitt besta til að halda góðu jafnvægi milli hefðarinnar, nýsköpunarinnar og endursköpunar listformsins. „Sumir erlendis fara þá leið að taka þekktu óperurnar og gera þær næstum óþekkjanlegar með nýstárlegri nálgun sem getur verið mjög spennandi, en það verður hver óperustjóri að vega og meta hvað hentar viðkomandi samfélagi, lesa sinn áhorfendahóp og finna leiðir til að höfða til nýrra áhorfenda. Þetta er stöðugur línudans,“ segir Steinunn Birna og nefnir að áhorfendum hafi fjölgað um 32% á milli ára, en þar sé aldrei á vísan að róa.

En snúum okkur að komandi starfsári. Hvað er framundan?

„Íslenska óperan býður upp á fjóra viðburði á komandi starfsári sem hefst 1. júlí með uppsetningu Brothers á fyrrnefndri óperuhátíð í Búdapest undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar,“ segir Steinunn Birna og bendur á að Kór Íslensku óperunnar taki þátt í uppfærslunni og flestir flytjendur séu þeir sömu og í Eldborg árið 2018.

„Fyrsta frumsýning haustsins á stóra sviði Þjóðleikhússins verður uppfærsla Íslensku óperunnar á Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart í leikstjórn Johns Ramster 7. september,“ segir Steinunn Birna, en í helstu hlutverkum verða Andrey Zhilikhovsky og Oddur Arnþór Jónsson sem skipta með sér hlutverki Almaviva greifa, Eyrún Unnarsdóttir sem syngur hlutverk greifynjunnar, Þóra Einarsdóttir sem syngur Súsönnu og Andri Björn Róbertsson sem syngur Fígaró sjálfan.

„Þó Brúðkaup Fígarós sé dásamleg ópera hefði hún ekki notið sín í Eldborg, því þessi ópera kallar á leikhús með meiri nálægð og hringsvið. Það er því mikilvægt skref fyrir Íslensku óperuna að eiga þess kost að setja upp ólík verk þar sem þau njóta sín best,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að það sé talsverð áskorun og kostnaður sem fylgi því að breyta tónleikasal í leikhús.

Jóna G. Kolbrúnardóttir og Arnheiður Eiríksdóttir í hlutverkum sínum sem …
Jóna G. Kolbrúnardóttir og Arnheiður Eiríksdóttir í hlutverkum sínum sem Hans og Gréta. Ljósmynd/Gunnar Freyr Steinsson

Mikilvægt að kynna óperuformið nýjum áhorfendum

„Við söknuðum þess til dæmis í uppfærslu okkar á Hans og Grétu. Í þeirri sýningu búa hins vegar mikil verðmæti svo við látum okkur dreyma um að fara með þá sýningu út á land og setja upp í samvinnu við barnakóra á viðkomandi sýningarstöðum,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að mikilvægt sé að kynna óperuformið bæði nýjum og ungum áhorfendum.

„Íslenska óperan tekur þátt í Myrkum músíkdögum þar sem flutt verður óperan Kok eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur upp úr samnefndu ljóða- og myndverki Kristínar Eiríksdóttur,“ segir Steinunn Birna og bætir við: „Mig langar að gera þátttöku Íslensku óperunnar í Myrkum músíkdögum að hefð, enda er það þáttur í því að þróa listformið og sinna nýsköpun,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að sér þyki mikilvægt að auka samstarf Íslensku óperunnar við íslensk tónskáld.

Að sögn Steinunnar Birnu pantaði Listahátíð í Reykjavík tónverk af Þórunni Grétu 2014 og hún valdi að vinna með Kok sem efnivið.

„Afraksturinn var 15 mínútna langt verk sem flutt var á Listahátíð 2015 af Kristni Sigmundssyni við undirleik fiðlu og hörpu. Óperan Kok verður 60 mínútna langt sviðsverk þar sem tónlist, leiklist og vídeólist mætast undir leikstjórn Kolfinnu Nikulásdóttur,“ segir Steinunn Birna og bendir á að við þróun verkefnisins hafi bassaröddinni verið skipt út fyrir mezzósópran, en Hanna Dóra Sturludóttir syngur óperuna.

Ekki má vanrækja hefðina

„Blásið verður til Wagner-veislu vorið 2020 í tilefni af því að Íslenska óperan fagnar 40 ára afmæli, Sinfóníuhljómsveit Íslands 70 ára afmæli og Listahátíð í Reykjavík 50 ára afmæli. Það þykir alltaf heyra til stórtíðinda þegar Wagner-ópera er flutt hérlendis,“ segir Steinunn Birna og rifjar upp að fyrsta óperan eftir Wagner sem flutt var á Íslandi í heilu lagi var Hollendingurinn fljúgandi árið 2002. „Að þessu sinni verður Die Walküre eða Valkyrjan flutt. Þetta verður í fyrsta sinn sem óperan er flutt í fullri lengd á Íslandi og um leið er þetta fyrsta ópera Niflungahringsins sem flutt verður óstytt á Íslandi. Flutningurinn markar því tímamót í sögu óperuflutnings á Íslandi og ég lofa stórkostlegri veislu þegar kemur að þessari sýningu sem er samstarfsverkefni okkar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Listahátíð,“ segir Steinunn Birna. Leikstjóri uppfærslunnar er Julia Burbach, sem er fastráðin við Covent Garden í London, hljómsveitarstjóri er Alexander Vedernikov, sem í fyrra tók við stöðu aðalstjórnanda við Konunglegu dönsku óperuna, og sjónræn umgjörð er í höndum vídeólistamannsins Tal Rosner sem unnið hefur til BAFTA-verðlauna fyrir list sína. Í burðarhlutverkum eru Christopher Ventris, Claire Rutter, Ólafur Kjartan Sigurðarson, Christine Goerke, Jamie Barton og Frode Olsen.

Það hefur stundum verið gagnrýnt að Íslenska óperan hlúi ekki nógu vel að nýsköpun í óperuheiminum í formi nýrra verka eftir íslensk tónskáld þar sem vinsæl kassastykki hafa oft orðið fyrir valinu. Hverju svarar þú því?

„Þetta er gagnrýni sem öll óperuhús fá reglulega. Það er svo auðvelt að hafa skoðun á því sem maður ber ekki ábyrgð á. Það er aðeins flóknara að vera í þeirri stöðu að bera ábyrgð bæði á listrænu innihaldi og fjárhagslegri útkomu. Sá sem hefur gert það veit að þetta eru allt mikilvægar og vandasamar ákvarðanir sem verða að vera vel ígrundaðar og mega ekki bara fara eftir smekk viðkomandi stjórnanda,“ segir Steinunn Birna og bendir á að með hliðsjón af þessu sé einmitt mjög mikilvægt að fara reglulega í stefnumótunarferli til að móta framtíðarsýn og markmið listastofnana.

„Markmið þeirrar vinnu er að þróa listformið áfram, en það þýðir ekki að við getum vanrækt hefðina eða vel þekktu óperurnar. Málið er að vera ekki of fyrirsjáanlegur og falla í far endurtekningar heldur að gera hlutina á spennandi og nýstárlegan hátt jafnvel þó við séum með eldra verk í höndunum. Þetta er línudans sem stjórnendur í mínum sporum dansa á hverjum degi.“

Vill panta nýtt verk árlega

Hver er sýn þín þegar kemur að frumsköpun íslenskra tónskálda á óperusviðinu?

„Eitt af persónulegum markmiðum mínum í stóli óperustjóra er að Íslenska óperan geti pantað eitt nýtt verk af íslensku tónskáldi árlega,“ segir Steinunn Birna og bendir á að Íslenska óperan sé að fara í samstarf við Bergen-óperuna með verkefni sem nefnist Future Opera.

„Þar er um að ræða óperu sem við pöntum af Báru Gísladóttur og frumflutt verður á Myrkum músíkdögum 2021 og í framhaldi flutt á Norðurlöndunum og Hollandi.“

Svo metnaðarfullt markmið er væntanlega ekki hægt að setja sér nema fjárhagslegi grunnurinn sé traustur eða hvað?

„Rétt en við verðum auðvitað líka að vera raunsæ, því það hefur aldrei verið svo að við fáum jafnmarga áhorfendur á ný íslensk verk. Við þurfum því að gera áætlanir miðað við að tekjurnar komi annars staðar frá. Þess vegna verðum við að hafa tekjuviðburði líka. Það þýðir ekki að þeir séu minna spennandi heldur þjóna þeir líka þeim tilgangi að búa til svigrúm til að gera ögrandi og tilraunakenndari viðburði sem gera aðra hópa forvitna. Þannig náum við til nýrra áhorfenda og tökum þátt í því að hreyfa listformið inn í framtíðina. Þessi nálgun í verkefnavali tel ég vera farsælasta fyrir okkur.“

Gerendur í eigin örlögum

Hvaða skoðun hefur þú á því að komið verði upp sérstöku óperuhúsi hérlendis?

„Spurningin um húsnæði er ein sú veigamesta í þeirri stefnumótunarvinnu sem framundan er. Ég þarf auðvitað að meta hvort mínum kröftum á nýhöfnu ráðningartímabili verði best varið í að beita mér fyrir óperuhúsi eða halda áfram að styrkja innri starfsemina með fjölgun listviðburða og þar með fleiri tækifærum fyrir söngvara.

Á núverandi tímapunkti held ég að fasteignarekstur fyrir stofnun eins og Íslensku óperuna sé ekki það farsælasta. Ópera er annað og meira en bygging. Þó vissulega gæti verið gott að fá okkar eigin höfuðstöðvar, sem margir sakna eðlilega úr Gamla bíói, þá er líka gríðarlega flókið að reka fasteign og það getur oft orðið listinni til höfuðs fjárhagslega. Og hvar stöndum við þá?

Ef það verður niðurstaðan að sækjast ekki eftir óperuhúsi heldur verða virkari gerendur í eigin örlögum, þá sé ég fyrir mér að við getum enn frekar aukið listviðburðina og aukið fjölbreytni. Þannig má hæglega skapa fleiri tækifæri í stöðunni og tilhlökkunarefni að takast á við verkefnin framundan,“ segir Steinunn Birna í viðtali við Morgunblaðið sem birtist fyrst fimmtudaginn 16. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert