Þetta er meiriháttar staður

Mér finnst oft gott að mæta þangað, fá mér hádegismat, …
Mér finnst oft gott að mæta þangað, fá mér hádegismat, skoða blöðin og vera innan um fólkið sem þangað mætir. Þetta er frábær stuðningsstaður og rosalega vel tekið á móti manni,“ segir Bjarni um Ljósið. mbl.is/Ásdís

 „Ég greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli í ágúst í fyrra og svo byrjaði boltinn að rúlla og ég fór í aðgerð 17. janúar,“ segir Bjarni Guðmundsson, 58 ára gamall verkefnastjóri hjá Jarðborunum. Bjarni segist hafa farið til læknis upphaflega vegna þess að honum fannst hann þurfa full oft á salerni. „Ég hélt jafnvel að þetta væru bara einhverjar bólgur en sem betur fer tók heimilislæknirinn vel á þessu og þreifaði og fann bólgur við blöðruhálskirtil og vildi blóðprufur. Eftir það sendi hann mig til sérfræðings og hann þreifaði, tók blóðprufur og sendi mig svo í myndatöku. Á myndum sáust skuggar sem benti til krabba. Því næst voru tekin um tíu sýni og kom í ljós án vafa að þetta væri krabbamein,“ segir Bjarni og útskýrir að sér hafi aldrei dottið í hug að þetta gæti verið krabbamein.

Hann fékk að vonum áfall þegar læknirinn sýndi honum dökku skuggana á myndinni og tjáði honum að hann væri með krabbamein.

„Ég var sleginn. Ég man nánast ekkert eftir þessum degi eftir að hann sagði þetta við mig. Konan mín hafði spurt hvort hún ætti að koma með mér til læknisins en ég taldi það ekki nauðsynlegt. Eftir á sá ég mikið eftir því að hafa ekki haft hana hjá mér. Ég man bara að hann sagði mér að þetta væri krabbi og eftir það fór ég í einhvers konar tómarúm.“

Gríðarleg hjálp

„Ég er ekki feiminn að tala um þetta en auðvitað tekur það alltaf á. Ég hef líka reynt að forðast að detta í það að tala of mikið um þetta; velta sér of mikið upp úr þessu. Ég reyni bara að lifa lífinu eins vel og ég get og njóta þess,“ segir hann. 

Bjarni ákvað strax að þiggja alla þá aðstoð sem í boði væri og leitaði til Ljóssins strax að aðgerð lokinni. „Ég hef stundað það þónokkuð og nýtt mér það sem er boðið upp á þar. Það hefur hjálpað mér alveg gríðarlega mikið,“ segir Bjarni. Hann hittir fastan hóp karlmanna í hádeginu á föstudögum og eins hefur hann sótt ýmis námskeið sem þar eru í boði. Til að mynda hefur hann sótt námskeið í núvitund og annað sem nefnist Karlar með krabba. „Þarna koma bæði sálfræðingar og læknar og eins karlar sem hafa fengið krabba sem lýsa því sem þeir hafa gengið í gegnum. Svo hef ég farið á miðvikudögum í fluguhnýtingar til að dreifa huganum. Mér finnst oft gott að mæta þangað, fá mér hádegismat, skoða blöðin og vera innan um fólkið sem þangað mætir. Þetta er frábær stuðningsstaður og rosalega vel tekið á móti manni,“ segir Bjarni og segist strax hafa fengið ítarlegar upplýsingar um allt sem er í boði hjá Ljósinu.

Eins og góð strætóstöð

Húsakostur Ljóssins á Langholtsvegi er orðið of lítið fyrir alla starfsemina sem þar fer fram. Til stendur að flytja annað hús á lóð við hliðina en slíkt er kostnaðarsamt og stendur Ljósið nú fyrir söfnun svo það geti orðið að veruleika. Bjóða þeir landsmönnum að gerast ljósavinir en hægt er að skrá sig á ljosid.is og leggja málefninu lið.

Bjarni segir augljóst að brýn þörf sé á stærra húsnæði. „Þetta er ansi góð strætóstöð oft á tíðum; ég veit að þarna fara í gegn oft hundrað manns á dag,“ segir Bjarni og nefnir að þarna sé verið að leira, mála, tálga, skera út og eins er þarna jóga, líkamsrækt og ýmis námskeið svo eitthvað sé nefnt.

„Þessi staður ætti að vera á föstum fjárlögum því það hlýtur að vera erfitt að þurfa alltaf að sækja eftir fé. Ef fólk fer í hjartaaðgerð er það sent í endurhæfingu á Reykjalund en ef maður greinist með krabba er ekkert gert ráð fyrir endurhæfingu, þrátt fyrir að það er vitað að maður missi mikla orku. Manni veitir ekki af að fá einhverja aðstoð til þess að koma sér aftur af stað. Ég finn það enn í dag að það vantar upp á orkuna. Ég veit ekki hvernig ég hefði farið í gegnum þetta án þess að hafa Ljósið. Þetta er meiriháttar staður. Ég vona að mín saga geti hjálpað einhverjum að taka skrefið til að fara í Ljósið.“

Hægt er að styrkja verkefnið með því að gerast Ljósavinur. Allar upplýsingar eru á ljosid.is. 

Ítarlegra viðtal við Bjarna er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert