Á eftir að taka skýrslu af fimm farþegum

Tveir farþegar liggja enn á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Tveir farþegar liggja enn á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á rútuslysinu á Suðurlandsvegi í Öræfum 16. maí síðastliðinn miðar vel. Búið er að taka skýrslu af öllum farþegum og ökumanni að undanskildum fimm einstaklingum vegna rannsóknarinnar. Í rútunni voru 33 er slysið varð en farþeg­arn­ir 32 voru all­ir kín­versk­ir ferðamenn. 

Skýrsla verður tekin af þeim þegar þeir hafa heilsu til, að sögn Odds Árnasonar yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi. Hluti af ferðamönnum er farinn af landi brott, að sögn Odds. Það hefur ekki áhrif á rannsóknina þar sem lögreglan hefur þegar fengið þær upplýsingar frá þeim sem til þarf. 

Fæst­ir farþegar rút­unn­ar, sem fór á hliðina, voru í beltum. Þetta hef­ur rann­sókn lög­reglu leitt í ljós en til­drög slyss­ins liggja enn ekki fyr­ir.

Oddur segist ekki geta sagt til um hvenær niðurstaða rannsóknar liggur fyrir. Hann segir að málið taki tíma. Í því samhengi vísar hann til rútuslyss sem varð í Eldhrauni við Kirkjubæjarklaustur í desember 2017 þar sem einn lést. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands í næstu viku. Það er tæpu einu og hálfu ári eftir að slysið varð.    

Tveir liggja enn á Sjúkrahúsinu á Akureyri 

Tveir af fjórum farþegum sem voru lagðir inn á Sjúkrahúsið á Akureyri eftir rútuslysið  voru útskrifaðir fyrir helgi. Hinir tveir verða útskrifaðir á næstu dögum, samkvæmt upplýsingum frá Bjarna Jónssyni, forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum fyrir helgi lágu þrír farþegar enn á gjör­gæslu­deild Land­spít­al­ans og einn á bráðal­egu­deild. Ekki hafa fengist upplýsingar frá spítalanum hvort staðan hafi breyst.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert