Þjóðleikhúsráði og mennta- og menningarmálaráðuneytinu barst í byrjun mánaðarins yfirlýsing frá deildarstjórum allra deilda Þjóðleikhússins þar sem lýst var yfir stuðningi við Ara Matthíasson þjóðleikhússtjóra.
Tilefnið var sagt vera að utan vinnustaðarins virtust vera raddir sem reyndu að tala starfsemi og stjórnanda Þjóðleikhússins niður.
„Ég vissi það þegar ég tók við sem þjóðleikhússtjóri að það myndu ekki allir elska mig jafn mikið,“ segir Ari meðal annars í umfjöllun Morgunblaðsins um málið í dag. Hann segist skilja að innan sviðslista sé mikil samkeppni og í því felist mikil vonbrigði fyrir fólk að fá ekki tækifæri sem það telji sig eiga skilið. Oft sé þó óþægilegt að geta ekki svarað sökum sem bornar eru á hann.
Ari segist afar þakklátur fyrir þann stuðning sem honum hafi verið sýndur. Þá kom Þjóðleikhúsið einna best út í niðurstöðum um starfsánægju meðal sviðslistastofnana á Íslandi. Þetta sé meðal margra þátta sem hvetji hann til þess að sækjast eftir því að gegna embættinu áfram, en skipað verður í stöðuna á ný frá 1. janúar á næsta ári.