Menn vilja fara með löndum

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata var af siðanefnd Alþingis talin …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata var af siðanefnd Alþingis talin hafa brotið gegn siðareglum með ummælum sínum um „rökstuddan grun“ um meintan fjárdrátt Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks. Forsætisnefnd fjallaði ekki ítarlega um málið í dag. mbl.is/​Hari

Ráðgefandi álit siðanefndar Alþingis um ummæli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingflokksformanns Pírata, er á borði forsætisnefndar Alþings en samkvæmt fyrsta varaforseta þeirrar nefndar verður góður tími tekinn í að gaumgæfa það mál.

Forsætisnefnd fundaði í morgun og var þar kynnt greinargerð Þórhildar Sunnu sjálfrar í málinu. Málið snýst um ummæli sem hún lét falla um „rökstuddan grun“ um meintan fjárdrátt Ásmundar Friðrikssonar í sambandi við aksturskostnað hans.

Forsætisnefndarmenn eiga í hættu á að verða vanhæfir ef þeir taka opinberlega afstöðu til tiltekinna mála og eru því flestir orðvarir í efnum sem lúta að störfum nefndarinnar.

Siðanefndin taldi Þórhildi Sunnu hafa brotið gegn siðareglum þingsins, sem voru settar 2015, og varð Þórhildur Sunna þar með sú fyrsta til þess að vera talin brotleg á þeim. Álit siðanefndar er hins vegar aðeins ráðgefandi og þarf því forsætisnefndin að taka afstöðu til þess.

„Á meðal annarra mála var greinargerð frá Þórhildi lögð fram á fundinum,“ staðfestir Guðjón S. Brjánsson, 1. varaforseti forsætisnefndar, í samtali við mbl.is. Hann segir greinargerðina nú í höndum nefndarmanna sem muni skoða hana í framhaldinu. Efnislega hafi hún ekki verið rædd.

„Hún fær í þessari greinargerð að gera ítarlega grein fyrir sínu máli. Ég geri svo ráð fyrir að það verði fundur eftir viku og þá verði fjallað eitthvað um efnið, þegar menn hafa náð að kynna sér málið,“ segir Guðjón.

Sumir vilja ekki hafa forsætisnefnd með í ferlinu. Guðjón segir að á fundinum hafi aðkoma forsætisnefndar að umgjörð siðareglna þingsins ekki verið rædd.

„Menn hafa þó auðvitað verið að velta fyrir sér öllum þáttum málsins en þetta er sú skipan sem nú gildir og er í samræmi við samþykkta þingsályktun,“ segir Guðjón. Á meðan annað komi ekki fram, sé unnið eftir settum reglum.

Um það hvenær niðurstaða forsætisnefndar kunni að liggja fyrir í þessu máli segir hann að nefndin muni gefa sér góðan tíma til að velta fyrir sér stöðunni. „Þetta eru ekki einföld mál sem við erum að fást við. Það eru allir sem taka þetta mjög alvarlega og þetta er okkur ekki léttbært,“ segir hann. „Það er aukaatriði hvort það verði næsta mánudag eða þarnæsta mánudag,“ segir Guðjón.

„Siðanefnd er að fóta sig á þessu sviði eins og við öll. Menn vilja bara fara með löndum og gera hlutina í samræmi við samþykktir sem gerðar hafa verið. Menn geta verið ósáttir við fyrirkomulagið eins og það er en þessi þingsályktun og regluverk er í gildi, nema því verði breytt,“ segir hann jafnframt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka