„Baráttan marklaus ef svona er liðið“

Plast er mengandi fyrir umhverfi og lífríki, ekki síst ef …
Plast er mengandi fyrir umhverfi og lífríki, ekki síst ef það er urðað í almennum urðunarstöðvum. AFP

Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, hyggst í fyrramálið fara á urðunarstöðina í Fíflholti á Mýrum að kynna sér aðstæður á svæðinu. Tilefnið er myndband sem mbl.is hafði til umfjöllunar í gær, sem birtist á Facebook hjá Rakel Steinarsdóttur.

„Okkur hjá Landvernd var brugðið þegar við sáum fréttina og myndirnar frá urðunarstöðinni í Fíflholti á Mýrum,“ segir Tryggvi við mbl.is. Í myndbandinu má sjá plast fjúka um alla urðunarstöðina en því væri ekki til að dreifa ef það plast hefði verið sett í plasttunnur.

„Við erum að reyna að átta okkur á því hvað er á seyði þarna og hvort allt sé í samræmi við lög og starfsleyfi,“ segir Tryggvi. „Ef þessi umgengni samræmist lögum og reglum þá er eitthvað mikið sem þarf að lagfæra,“ segir hann. Í samtali mbl.is við framkvæmdastjóra urðunarstöðvarinnar í gær kom fram að stöðin ynni í samræmi við lög um meðhöndl­un úr­gangs nr. 55/​2003.

Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum. „Baráttan gegn plastmengun sem Landvernd tekur virkan þátt í er marklaust ef svona er liðið,“ segir Tryggvi. 

Í fyrramálið hyggst hann fara í vettvangsverð á staðinn. Aðgangur er bannaður almenningi þannig að koma verður í ljós hvort af henni verði.

Myndbandið umrædda má sjá hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert