Fjölmargir lögðu leið sína á Reykjavíkurflugvöll í kvöld þegar til að skoða fimm þristavélar, DC-3- og C-47-flugvélar, frá Bandaríkjunum. Vélarnar voru til sýnis á vellinum í kvöld og segir Stefán Smári Kristinsson flugrekstrarstjóri að um einstakt tækifæri hafi verið að ræða.
Þrjár vélanna voru komnar á Reykjavíkurflugvöll í gær, ein kom í morgun og síðasta lenti á vellinum síðdegis. Þá er von á fimm þristum til viðbótar á morgun.
Allar vélarnar voru smíðaðar á árunum 1943 til 1945. Vélin sem kom í morgun er að sögn Stefáns merkilegust. „Hún heitir That´s All, Brother, en var leiðtogavélin í innrás Bandaríkjanna í Normandí.“
Vélarnar eru í leiðangrinum D-Day Squadron og koma til Reykjavíkur á leið sinni frá Bandaríkjunum til Frakklands til að taka þátt í athöfn í Normandí 6. júní. Þann dag verða 75 ár liðin frá innrásinni í Normandí sem fjöldi DC-3-véla tók þátt í.
Áhugafólk um flug, ungir sem aldnir, lögðu leið sína á Reykjavíkurflugvöll í kvöld og var ljósmyndari mbl.is á staðnum og myndaði dýrðina.