„Þetta er óneitanlega eitthvað sem fór fyrir brjóstið á mér, ég er ekki ánægður með svona framgöngu,“ segir Felix Bergsson, fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins, en flugvallarstarfsmenn í Tel Aviv stærðu sig af því á netinu að þeir hefðu gefið liðsmönnum hljómsveitarinnar Hatara „vond sæti“ í flugvél þeirra frá Tel Aviv í gærmorgun.
Birtu þeir að auki ljósmynd beint úr bókunarkerfi El Al, ríkisflugfélags Ísraels, á flugvellinum þar sem glöggt mátti sjá sætisnúmer hljómsveitarinnar sem og flugnúmer vélarinnar sem hljómsveitin átti bókað far með.
Ljóst þykir að þetta framferði gæti hafa brotið í bága við reglur um persónuvernd eða flugsamgöngur og segir Felix að hópurinn muni skoða málið nánar á næstu dögum og gera athugasemdir við þessa framgöngu. „En hvort það fari í gegnum okkar samstarfsaðila, sem er Icelandair, sem bókar flugið, eða einhverja aðra verður bara að koma í ljós.“ Felix segir einnig mögulegt að kvartað verði beint við El Al vegna málsins.
Felix segir að hópurinn hafi orðið var við að sætisnúmerunum hafði verið lekið á netið snemma í gærmorgun, en þá var hópurinn á leiðinni á flugvöllinn. Þegar þangað var komið hefði komið í ljós að sætisnúmerin sem sáust á netinu voru rétt. „Við veltum fyrir okkur hvort við ættum að gera mál úr þessu á flugvellinum, en ákváðum að bíða með það og gera frekar formlega kvörtun, auk þess sem við vildum ræða við okkar menn hjá Ríkisútvarpinu um hvað fólk vildi að við gerðum í þessu, en mér finnst þetta ekki gott mál.“