Segir innheimtustarfsemina lögmæta

Almenn innheimta sér um innheimtu fyrir smálánafyrirtæki.
Almenn innheimta sér um innheimtu fyrir smálánafyrirtæki. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Gísli Kr. Björnsson, lögmaður og eigandi Almennrar innheimtu, segir í samtali við mbl.is að innheimtustarfsemi sé lögleg hér á landi, og að Almenn innheimta starfi innan ramma íslenskra laga um slíka starfsemi. Fyrirtækið hefur séð um innheimtu fyrir smálánafyrirtæki.

Gísli kom inn í fyrirtækið í febrúar og hefur að eigin sögn verið í góðu samstarfi við Lögmannafélag Íslands (LÍ) allt frá þeim tímapunkti. Þá hafi hann strax gert kröfuhöfum það skýrt að þeir yrðu að starfa í fullu samræmi við íslensk lög, öðruvísi yrðu kröfur þeirra ekki innheimtar af Almennri innheimtu. 

Neytendasamtökin hafa gert alvarlegar athugasemdir við starfsemi Almennrar innheimtu, og segja fyrirtækið ganga fram af mikilli hörku við að innheimta lán sem ótvírætt beri ólögmæta vexti. „Okkur finnst margt sem Almenna innheimtufélagið er að gera ekki vera í lagi,“ segir Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is.

Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna.
Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segja fyrirtækið halda uppi hótunum

Eins og greint var frá í Fréttablaðinu í morgun hafa Neytendasamtökin ákveðið að senda erindi til kærunefndar LÍ þess efnis að innheimtuaðgerðir Almenna innheimtufélagsins verði skoðaðar. 

„Fólki er hótað því að vera sett á vanskilaskrá, ef það greiðir ekki okurvexti sem eru ólöglegir. Það sem okkur finnst ekki síst alvarlegt er að fólk fái ekki greinargóða lýsingu á kröfunni,“ segir Brynhildur sem segir að mörgum skuldurum hafi reynst erfitt að fá skýra útlistun á kröfunum sem þeir fá í hendur. 

Gísli Kr. Björnsson, lögmaður og eigandi Almennrar innheimtu.
Gísli Kr. Björnsson, lögmaður og eigandi Almennrar innheimtu.

Eðlilegar aðgerðir

Spurður um meintar hótanir Almennrar innheimtu við skuldara, um að þeir verði settir á vanskilaskrá greiði þeir ekki skuldir sínar, segir Gísli að öll fjármálafyrirtæki beiti viðlíka aðgerðum, enda hafi fyrirtæki fá önnur úrræði til að fá kröfur sínar greiddar. 

Þá bendir Gísli á að umboðsmaður skuldara hafi aldrei vísað frá kröfu frá smálánafyrirtæki, hvorki varðandi höfuðstól né annan kostnað, og bendi það til þess að íslensk stjórnvöld séu að samþykkja þessi lán. 

Að síðustu bendir Gísli á að Neytendasamtökin eigi enga aðkomu að LÍ. Engu að síður hafi hann upplýst LÍ um alla starfsemi félagsins, bæði að beiðni félagsins og að eigin frumkvæði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert