Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa á um 20 mánaða tímabili villt á sér heimildir í samskiptum við konu á samfélagsmiðlinum Snapchat, fengið hana hana til að senda sér nektarmyndir og notað þær til að kúga hana til kynmaka með öðrum mönnum.
Maðurinn var einnig fundinn sekur um að hafa nauðgað konunni í tvígang þegar hún var með bundið fyrir augun og hélt að hann væri annar maður.
Vísir greinir frá en dómurinn, sem var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í gær, hefur ekki verið birtur.
Samskipti mannsins við konuna hófust í mars 2015, í gegnum samskiptamiðilinn Snapchat. Maðurinn var þá 22 ára og stóðu samskiptin yfir fram í ársbyrjun 2017. Konan er tveimur árum yngri en maðurinn. Maðurinn þóttist vera annar ungur maður sem konan þekkti og fékk hana þannig til að eiga í kynferðislegum samskiptum við sig og braut gegn henni.
Maðurinn stofnaði Snapchat-reikning í nafni hins mannsins, sem konan þekkti, og fékk hana til að hitta sig í tvígang á hóteli þar sem hann fór fram á að hún yrði bundin og með bundið fyrir augun á meðan þau höfðu samræði. Konan taldi sig vera að hitta manninn sem hún þekkti.
Eftir því sem leið á samskiptin hóf maðurinn að stjórna konunni með hótunum og neyddi hana til að stunda kynferðismök með öðrum mönnum. Neyddi hann hana m.a. Til að taka þau upp og senda sér myndir, myndupptökur eða hljóðupptökur af samskiptunum.
Konan leitaði til Bjarkarhlíðar, miðstöðvar þolenda ofbeldis, árið 2017. Við rannsókn málsins kom í ljós að hinn dæmdi hafði villt á sér heimildir og þóst vera annar maður. Sá maður, sem konan þekkti, var ómeðvitaður um allt sem fram hafði farið.
Auk fjögurra ára fangelsis er maðurinn dæmdur til að greiða konunni 1,5 milljónir í miskabætur.