„Sig­ur fyr­ir lífs­kjör allra Íslend­inga“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/​Hari

„Ég er mjög ánægður með það skref sem peningastefnunefnd stígur í dag. Það er mjög mikilvægt,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við vaxtalækkun Seðlabanka Íslands í morgun þar sem peningastefnunefnd bankans lækkaði vexti um 0,5 prósentustig í 4%.

„Vaxtalækkunin er náttúrulega mikið gleðiefni fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og ég lít svo á að þetta styrki lífskjarasamninginn verulega í sessi enda byggðist hann á samsettri lausn þar sem vaxtalækkun var fyrirséð. Verkalýðshreyfingin ákvað að stíga þetta skref með okkur og ég tel að hún eigi mikið hrós skilið í þessum efnum.“

Halldór segir enn fremur ánægjulegt að peningastefnunefnd lýsi yfir afdráttarlausum stuðningi við lífskjarasamninginn og að samningurinn hafi auðveldað nefndinni að lækka vexti. Þessi vaxtalækkun markar skörp skil frá vinnubrögðum fortíðarinnar og er sigur fyrir lífskjör allra Íslendinga,“ segir Halldór enn fremur.

Spurður enn fremur um yfirlýsingar Eflingar stéttarfélags þar sem hótað hefur verið uppsögn lífskjarasamningsins, vegna ákvörðunar eiganda hótelkeðju að segja upp launaliðnum gagnvart starfsmönnum sínum en borga eftir sem áður laun yfir taxta og kallað eftir aðkomu ríkissáttasemjara, segir Halldór:

„Ég hafna málatilbúnaði Eflingar með öllu og það höfum við gert skriflega í bréfi til félagsins. Þessi málflutningur stenst ekki skoðun og það er vandséð hvert hlutverk ríkissáttasemjara sé í þessari deilu sem við getum bara leyst okkar á milli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert