Samkvæmt vinningstillögu fyrir skipulag á lóð við Malarhöfða og Sævarhöfða, þar sem nú er Malbikunarstöðin, er gert ráð fyrir að reisa stærsta timburhús landsins með sem samtals verður um 22 þúsund fermetrar að stærð, þar af um 17 þúsund fermetrar af íbúðum. Hægt verður að sækja vinnu þjónustu og leikskólanám í byggingunni, auk þess sem mikill fjöldi íbúða verður þar.
Vinningstillagan var kynnt á vef Reykjavíkurborgar í dag, en um er að ræða hluta af verkefni í samkeppni „C40 Reinventing cities“ sem gengur út á grænar þróunarlóðir með sjálfbærni og umhverfisvænni byggð að leiðarljósi.
Samkvæmt tillögunni verður byggingin O-laga á 6-7 hæðum og byggt úr svokölluðum CLT-timbureiningum (cross laminated timber). Er það svipað og nýi Waldorfskólinn í Sóltúni er byggður úr.
Edda Ívarsdóttir borgarhönnuður, segir í samtali við mbl.is að CLT-einingarnar hafi ekki verið krafa til að taka þátt í samkeppninni, en að slíkt fyrirkomulag stytti meðal annars byggingartíma þar sem ekki þarf að fara í uppsteypun heldur er um fyrirframgerðar einingar að ræða.
Í tillögunni, sem unnin er af Jakob+Macfarlane. T.ark, Landslagi, Eflu, Heild, Klasa, Arnarhvoli og Upphafi.er gert ráð fyrir 300 fermetra veitingastað, 400 fermetra skóla, 4.100 fermetra verslunar og þjónusturými og svo 5 hæðum af íbúðum, samtals 17 þúsund fermetrum.
Edda segir að í raun sé þarna verið að horfa til þess að byggja nýtt upphaf af hverfi á neðanverðum Ártúnshöfða, en þarna er gert ráð fyrir að borgarlínan muni fara um á leið upp yfir Ártúnshöfðann. Segir hún að byggingin í heild verði í raun eins konar hverfi í sjálfu sér þar sem fólk geti fræðilega búið, unnið og haft börn á leikskóla. Þá geti fólk nýtt þakgarða undir gróðurhús og ræktun og í miðjunni verði garður sem eigi að veita gott skjól.
Næstu skref eru að vinningsteymið mun hefja viðræður við borgina, en vinningstillagan þurfi auk þess að koma til móts við áskoranir sem eru sjálfbærar, líka að mæta ýmsum fjárhagslegum áskorunum. Edda segir að þarna sé í raun verið að horfa til þess að búa til húsnæði sem er framarlega á öllum sviðum sjálfbærni. „Þarna erum við að horfa til þess hvernig við gerum byggingar framtíðarinnar,“ segir hún.