Ákærður fyrir fjárdrátt og peningaþvætti

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Héraðssaksóknari hefur ákært Magnús Stefán Jónasson, fyrrverandi skrifstofustjóra Afls sparisjóðs, fyrir fjárdrátt, umboðssvik og peningaþvætti. Er hann bæði ákærður fyrir að hafa dregið sér fé og millifært fé inn á reikning verktakafyrirtækis í hans eigu. Ákæran er í níu liðum en sum málið eru um áratugar gömul.

Málið snýst samtals um tæplega 85 milljónir króna sem Magnús er ákærður fyrir að hafa annaðhvort dregið sér sjálfur eða lagt inn á reikning verktakafyrirtækisins. Þá annaðhvort beint eða með viðkomu á reikningum í eigu annarra félaga og einstaklinga. Hann er einnig ákærður fyrir lánveitingar án þess að hafa til þess heimildir.

Þannig er Magnús ákærður fyrir umboðssvik fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fjármunum sparisjóðsins í verulega hættu á árinu 2011 þegar hann hafi farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga og gegn starfsfyrirmælum með því að láta sparisjóðinn lána fjórum einstaklingum fimm milljónir króna hverjum í formi yfirdráttarheimildar.

Fjármunirnir, samtala 20 milljónir króna, voru síðan millifærðir af Magnúsi yfir á reikning í eigu félagsins Dis ehf. til lækkunar á yfirdráttarskuld þess við sparisjóðinn sem gerði félaginu mögulegt að auka yfirdrátt sinn sem þeirri fjárhæð nam.

Lánveitingin hafi verið afgreidd af Magnúsi án samþykkis lánanefndar sparisjóðsins, án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með fullnægjandi hætti og án þess að kanna eða láta kanna með fullnægjandi hætti greiðslugetu lántakenda sem var í andstöðu við reglur bankans um lánveitingar.

Lánveitingin hafi ekki fengist nema að hluta endurgreidd og telja verði umrædda fjármuni sparisjóðnum að verulegu leyti glataða. Þó hafi skiptum á þrotabúi Dis ehf. verið lokið án þess að nokkuð kæmi upp í lýstar kröfur í búið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert