Bjarni Ármannsson er kominn í hóp þeirra Íslendinga sem hafa náð á topp hæsta fjalls heims, Everest, en hann náði því takmarki í morgun. Hann náði því afreki snemma í morgun og er lagður af stað niður að nýju. Mbl.is telst til að Bjarni sé áttundi Íslendingurinn sem toppar Everest.
21. maí 1997 urðu fjallgöngukapparnir Björn Ólafsson, Einar K. Stefánsson og Hallgrímur Magnússon fyrstu Íslendingarnir til þess að ná á tind Everest.
Haraldur Örn Ólafsson gekk næstur Íslendinga á þetta hæsta fjall heims og stóð á tindi Everest 16. maí 2002. Tveir Íslendingar gengu á Everest vorið 2013. Ingólfur Geir Gissurarson náði tindinum 21. maí. Hann stóð þá á fimmtugu og var elsti Íslendingurinn og eini íslenski afinn sem hafði gengið á hæsta fjall heims.
Leifur Örn Svavarsson náði tindi Everest 23. maí 2013. Hann er eini Íslendingurinn sem hefur farið norðurleiðina á Everest, en hún er tæknilega erfiðari en suðurleiðin. Vilborg Arna Gissurardóttir komst síðan á topp Everest-fjalls 21. maí 2017 og varð þar með sjöundi Íslendingurinn til þess að ná því afreki.
Besti tími ársins til þess að klífa Everest er maí og sést vel á Facebook-síðu fjallsins að það er þröng á þingi þessi dægrin.