Einar Ben á Alþingi

Þorsteinn Sæmundsson.
Þorsteinn Sæmundsson. mbl.is/Kristinn Magnússon
Þriðju nóttina í röð ræða þingmenn Miðflokksins um þriðja orkupakkann og hefur umræðan farið víða. Á öðrum tímanum í nótt bað Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, menn um að halda sig við umræðuefnið og sleppa upplestri á kveðskap Einars Benediktssonar nema þá á kvæðinu Dettifossi.
Vísaði Steingrímur til þingskaparlaga og sagðist fúslega fallast á að upprifjun á virkjunarsögunni sé orkutengd og gerir ekki athugasemd við að hún sé rifjuð upp í ræðustól á Alþingi. Hið sama eigi við um stórmerkilegar teikningar sem gerðar voru á vegum Einars Ben á mögulegu stöðvarhúsi við Búrfellsvirkjun fyrir um 100 árum. En tæplega kveðskapur Einars almennt. Vísar Steingrímur þar til þess að Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, boðaði að koma með ljóðasafn hans í ræðustól. Taldi Steingrímur að þar mætti helst heimfæra kvæðið Dettifoss inn í umræðuna en vandinn væri sá að það væri lakara en kvæði Kristjáns fjallaskálds um sama foss. 
Fundi var slitið klukkan 6:01 í morgun og hefst að nýju klukkan 15:30.
Þingmenn Miðflokksins sátu að mestu einir að ræðustólnum í nótt líkt og í gær. Þingfundurinn stóð raunar frá klukkan 13.30, eða í rúmar 19 klukkustundir í gær. Er þetta sá þingfundur sem staðið hefur lengst fram á morgun frá því Alþingi var gert að einni málstofu. Fyrra metið var 19. desember 1996 þegar fundi var slitið kl. 7.59 morguninn eftir. Næturfundurinn fór í að ræða öryggi raforkuvirkja og fleiri mál. Dæmi eru um lengri fundi í deildum Alþingis á árum áður, til dæmis um kvótafrumvarpið 1984.

„Það hefur vissulega farið mikill og dýrmætur tími í þetta eina mál sem enn er til umræðu. Það er aðeins farið að setja áætlanir okkar úr skorðum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, spurður um þinghaldið fram undan. Forsætisnefnd hefur brugðist við með því að lengja fundi fram á nótt og bæta við þingfundum, eftir nefndafundi í dag og á morgun. „Þetta fer fljótlega að bitna á þeim málum sem við annars hefðum verið að vinna með. Það verður enn þá verra ef ekki tekst að leysa málið fyrir helgi.“

Á meðan rætt er um þriðja orkupakkann afgreiða nefndirnar frá sér mál sem sett eru á dagskrá þingsins til síðustu umræðu en komast ekki að. Á fundi þingsins í gær voru 20 mál á dagskránni. Búist er við að það bætist á þann hlaða á nefndafundum í dag og á morgun en þá eiga nefndirnar að vera búnar að afgreiða helstu mál.

Steingrímur segir að staðan skýrðist betur undir lok vikunnar. Ef það mál sem nú tefur afgreiðslu annarra mála verður þá frá reiknar Steingrímur með að farið verði að ræða alvarlega um það hvernig hægt verði að ljúka þingstörfum. Samkvæmt starfsáætlun er stefnt að þingfrestun 5. júní. Fram til þess tíma eru 4 þingfundardagar, auk þeirra tveggja kvöldfunda sem boðaðir hafa verið, og svo eldhúsdagur fyrir almennar stjórnmálaumræður. Steingrímur segir að ef ekki takist að ljúka vinnunni á þessum tíma gæti þurft að funda eitthvað lengur.

Miðflokksmenn „reykspóla“ upp ræðulistann

Þingmenn Miðflokksins hafa nánast verið einráðir í þessum umræðum. Þeir flytja hverja ræðuna af annarri um málið og fara svo í andsvör hver við annan.

Þetta hefur orðið til þess að þingmenn flokksins hafa rokið upp listann yfir þá þingmenn sem lengst hafa talað á yfirstandandi þingi, 149. löggjafarþinginu.

Birgir Þórarinsson í Miðflokki er í nokkrum sérflokki og stefnir hraðbyri að titlinum „Ræðukóngur Alþingis.“ Þegar fundi var slitið í gærmorgun hafði Birgir flutt 518 ræður og athugasemdir á yfirstandandi þingi og talað samtals í 1.505 mínútur, eða 25 klukkustundir.

Þegar staðan var tekin fyrir rúmum mánuði, 19. apríl, voru þeir svo að segja hnífjafnir Birgir og Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. Þorsteinn heldur enn 2. sætinu, hefur talað í 1.108 mínútur. Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki hefur talað í 1.076 mínútur og nálgast nafna sinn óðfluga. Björn Leví Gunnarsson Pírati hefur talað í 907 mínútur og í 5. sæti er Ólafur Ísleifsson Miðflokki, sem hefur talað í 858 mínútur. Bryndís Haraldsdóttir Sjálfstæðisflokki hefur talað lengst þingkvenna, eða í 847 mínútur. Bjarni Benediktsson Sjálfstæðisflokki hefur talað lengst ráðherra eða í 790 mínútur.

Þingmenn Miðflokksins eru enn á mælendaskrá þegar þetta er skrifað á sjötta tímanum og óvíst hvenær þingfundi lýkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert