Meðal ástæðna þess að ekki hefur verið boðið upp á meira úrval af amerískum vörum í Costco á Íslandi en raun ber vitni eru evrópskar reglur sem gilda hér á landi vegna aðildar landsins að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES).
Þetta kom meðal annars fram í máli talsmanna Costco á Íslandi fyrir og eftir að verslunin í Kauptúni í Garðabæ var opnuð fyrir réttum tveimur árum. Engilbert Arnar Friðþjófsson, sem hélt úti vinsælli facebooksíðu um Costco, sagði meðal annars í samtali við mbl.is í dag í tilefni af tveggja ára afmæli Costco á Íslandi að það sem fólk á Íslandi vildi helst væru fleiri amerískar vörur miðað við facebooksíðuna hans.
Þær reglur sem um er að ræða snúa einkum að matvælamerkingum en reglur Evrópusambandsins, sem teknar eru upp hér á landi í gegnum EES-samninginn, eru gjarnan ólíkar þeim reglum sem gilda vestan hafs sem aftur getur kallað á umtalsverðan kostnað við endurmerkingar í samræmi við evrópsku reglurnar.
Önnur ástæða er lægri flutningskostnaður frá Evrópu til Íslands en frá Ameríku, en upphaflega stóð til að verslunin á Íslandi yrði útibú frá Costco í Kanada og að mun meira af amerískum vörum yrði á boðstólum í henni, ekki síst kanadískum. Niðurstaðan varð sú að Costco á Íslandi yrði útibú frá starfsemi fyrirtækisins í Bretlandi.
Fyrir vikið er Costco-verslunin í Kauptúni líkari þeim verslunum sem eru í Bretlandi en Bandaríkjunum eða Kanada að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins og mikið af þeim vörum sem boðið er upp á eru ennfremur breskar eða frá öðrum Evrópuríkjum.