Þúsundþjalasmiðurinn Þórhallur Sigurðsson er engum líkur enda hefur listamaðurinn farið í fleiri hlutverk en gengur og gerist í listasögunni.
Annað kvöld klukkan 20 opnar hann myndlistarsýningu í Smiðjunni Listhúsi, Ármúla 36 í Reykjavík, og í kjölfarið fer hann til Svíþjóðar til þess að taka þátt í Evrópumóti öldungalandsliða í golfi. Söngurinn er svo aldrei langt undan frekar en önnur hlutverk á sviði.
„Það eru að verða tvö ár frá síðustu sýningu, ég hef verið duglegur að mála síðan og þegar Bjarni Sigurðsson í Smiðjunni Listhúsi vildi endurtaka leikinn sló ég til,“ segir listamaðurinn. Hann sýnir 20 verk eins og síðast, en á sýningunni 2017 seldust allar myndir á opnunarkvöldinu. „Það er engin ástæða til þess að hætta þegar vel gengur. Ég sá að myndirnar féllu í kramið og því hélt ég áfram á sömu braut.“
Laddi segir að myndirnar hafi breyst, séu þróaðri en áður og stærri. „Þetta eru áfram karakterar, fígúrur, sem eru ekki alveg mennskar en mjög sérstakar.“ Hann leggur áherslu á að þær eigi ekkert skylt við persónurnar sem hann hafi skapað á sviði.
Sjá viðtal við Ladda í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.