Fólk vill meira af amerískum vörum

Engilbert Arnar fyrir framan Costco.
Engilbert Arnar fyrir framan Costco. mbl.is/Hari

Fáir Íslend­ing­ar hafa verið ánægðari með versl­un­ina Costco, frá því að hún opnaði dyr sín­ar í Kaup­túni í Garðabæ á þess­um degi fyr­ir tveim­ur árum, en Engil­bert Arn­ar Friðþjófs­son. Færsl­ur hans í Face­book-hópi, sem sner­ust al­farið um vöru­fram­boð og verð í Costco, vöktu mikla at­hygli eft­ir að versl­un­in opnaði og Engil­bert er enn mik­ill aðdá­andi banda­ríska versl­un­ar­ris­ans.

Í dag held­ur hann úti sín­um eig­in Face­book-hópi, Costco – Gleði, en þar eru yfir 34 þúsund aðilar og virk umræða um vöru­fram­boð versl­un­ar­inn­ar á sér stað. 

Engil­bert er því með putt­ann á púls­in­um hvað varðar Costco og var al­veg til í að fara aðeins yfir hlut­ina þegar að blaðamaður hringdi í hann, á tveggja ára af­mæli versl­un­ar­inn­ar hér á landi.

Tel­ur að Costco sé að finna sig á ís­lenska markaðnum

„Und­an­farið eru þeir bún­ir að vera dá­lítið að dala með að koma með nýj­ar vör­ur,“ seg­ir Engil­bert og seg­ir að versl­un­in mætti koma með „meira af spenn­andi vör­um“ og nefn­ir sér­stak­lega að sæl­gæt­is­deild­in mætti vera betri.

„Mikið mun betri myndi ég segja. Hún er bara alls ekki nógu góð,“ seg­ir Engil­bert og bæt­ir við að hann viti til þess að marg­ir séu sam­mála sér um það.

„Það sem fólk vill, núm­er 1, er að fá inn am­er­ísk­ar vör­ur. Það er það sem Costco-gleðigrúbb­an kall­ar á. Fólk vill fá inn Hers­hey‘s og fleiri teg­und­ir af M&M. Costco úti er víst með gríðarlega flott úr­val af sæl­gæti fyr­ir sæl­gæt­is­grísi. Fólki finnst vanta meiri frí­hafn­ar­fílíng í þetta, nammi­deild­ina hjá þeim,“ seg­ir Engil­bert.

„Það var þannig að þau opnuðu með rosa­lega mikl­um krafti og þau komu með mikið af flott­um vör­um og síðan hef­ur þetta ró­ast aðeins hjá þeim. Ég held að þau séu bara að reyna að finna sig ein­hvern veg­inn á markaðnum. Hvað þeir ætli að vera með hérna og selja hérna,“ en Engil­bert seg­ir að hann telji Costco „klár­lega komið til að vera“ á Íslandi.

„Stærsti kost­ur­inn við Costco er eldsneytið og þeir hafa veitt öðrum gríðarlega sam­keppni á eldsneyt­is­markaði, sem hjálp­ar klár­lega fólk­inu, bara mjög mikið,“ seg­ir Engil­bert, sem nefn­ir einnig að hon­um þyki „vera öðru­vísi stemn­ing“ í Costco en í öðrum versl­un­um, þegar hann fer.

Og versl­ar hann þá aðallega í Costco?

„Nei, ég segi það nú ekki. Maður fer líka í Bón­us og Krón­una, reynd­ar aðallega þangað,“ seg­ir Engil­bert.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert