„Gefum börnum tækifæri á að tala“

Af þeim 770 sem leituðu til Stígamóta í fyrsta sinn …
Af þeim 770 sem leituðu til Stígamóta í fyrsta sinn á árunum 2016 til 2018 höfðu 95% orðið fyrir ofbeldinu á aldrinum 5 til 17 ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Rannsóknir hafa sýnt að yngra fólk er líklegra til þess að þróa með sér áfallastreitueinkenni í kjölfar kynferðisofbeldis en þeir sem eldri eru,“ segir Anna Þóra Kristinsdóttir, sálfræðingur hjá Stígamótum, sem kom að gerð skýrslu UNICEF um ofbeldi gagnvart börnum á Íslandi.

Þar kemur meðal annars fram að fimmta hvert barn á Íslandi verður fyrir ofbeldi. Marktækur munur er á afleiðingum kynferðisofbeldis hjá þeim því eru beittir fyrir 18 ára aldur og þeim sem eldri eru þegar ofbeldið á sér stað. Er yngri hópurinn til að mynda næstum tvöfalt líklegri til að íhuga sjálfsvíg í kjölfar ofbeldisins.

Ofbeldið móti sjálfsmynd barna

Á þessu segir Anna Þóra geta verið nokkrar mögulegar skýringar. „Yngra fólk er með ómyndaðri sjálfsmynd og ofbeldið hefur meiri áhrif sem endast lengur ef ekki er gripið inn í, ef einstaklingurinn fær ekki hjálp við að vinna úr áfallinu,“ segir Anna Þóra. „Svo getur verið að börn séu að lenda ítrekað í ofbeldi, lenda í fleiri atvikum en þeir sem eldri eru, og það ýtir undir áfallastreituna.“

Af þeim 770 sem leituðu til Stígamóta í fyrsta sinn á árunum 2016 til 2018 höfðu 95% orðið fyrir ofbeldinu á aldrinum 5 til 17 ára, en leituðu sér ekki hjálpar fyrr en eftir 18 ára aldur. Þar af voru 34 eldri en 60 ára þegar þeir leituðu sér hjálpar.

„Flestir leita ekki hjálpar fyrr en á fullorðinsaldri og hafa kannski ekki talað um þetta neins staðar áður. Umræðan er sem betur fer orðin meiri og með átaki UNICEF er fólk hvatt til að veita þessu athygli. Við þurfum að bæta hlustunarskilyrði og hvetja fólk til að vera vakandi yfir því að þetta getur verið ástæðan fyrir vanlíðan hjá börnum.

Við verðum að gefa börnum tækifæri til að tala um þetta þótt það sé erfitt, og við verðum að láta vita ef grunur er um ofbeldi. Samkvæmt rannsóknunum skiptir svo rosalega miklu máli að grípa snemma inn í. Ef gripið er inn í eru líkurnar minni á að afleiðingarnar verði alvarlegar.“

Hægt er að skrifa undir átak UNICEF gegn ofbeldi gagnvart börnum, Stöðvum feluleikinn, HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert