Gert við mastrið á Patreksfirði

Skúta Andrews Bedwell á Patreksfirði. Gera þurfti við mastrið.
Skúta Andrews Bedwell á Patreksfirði. Gera þurfti við mastrið. Ljósmynd/Andrew Bedwell

Breski siglingakappinn Andrew Bedwell sigldi smáskútu sinni, 241 Blue One, í einum áfanga frá Neskaupstað til Patreksfjarðar. Það þykir afrek að sigla svo litlu fleyi, 6,5 metra löngu, einn síns liðs milli landa og kringum landið.

Leið hans lá nokkuð langt norður fyrir landið og síðan suður með Vestfjörðum. Hann þurfti að snarvenda framhjá fiskiskipum í sterkum vindi og við það brotnuðu slár við stög mastursins. Unnið er að viðgerð á Patreksfirði.

Stífa við mastrið sem heldur við stögin brotnaði.
Stífa við mastrið sem heldur við stögin brotnaði. Ljósmynd/Andrew Bedwell

Andrew lætur mjög vel af ferðinni en vildi hafa haft betra skyggni fyrir Norðurlandi því hann sá lítið til lands. Hann vonast til að geta haldið siglingunni áfram á laugardag ef veður leyfir. Hann áformar að sigla til Reykjavíkur og þaðan beina leið til Englands. Hann ákvað það eftir að dóttir hans sagði við hann í gærkvöld:

„Hvenær kemur þú heim pabbi? Ég er að gleyma því hvernig þú lítur út!“

Íslendingar hafa reynst Andrew mjög hjálplegir og hann segir viðtökurnar á Patreksfirði hafa verið mjög góðar. Í netspjalli við blaðamann kveðst hann vona að siglingamenn frá Bretlandi og víðar að muni koma og njóta þess að sigla hér við land, sem sé stórkostlegt.

Konan hans sagði frá siglingunni í grunnskóla dóttur þeirra í gær, en Andrew safnar áheitum til skólans. Búið er að kaupa leiktæki á skólalóðina fyrir söfnunarfé.

Þegar er búið að kaupa leiktæki á skólalóðina þar sem …
Þegar er búið að kaupa leiktæki á skólalóðina þar sem dóttir Andrews stundar nám fyrir söfnunarféð. Ljósmynd/Andrew Bedwell

Hefur náð ótrúlega langt

Arnþór Ragnarsson, sem er reyndur siglingamaður, hefur fylgst með ferðalagi Andrews Bedwell. Hann sagði að það væri mikið afrek að sigla svo lítilli skútu milli landa og svo kringum landið einn síns liðs.

„Það er ótrúlegt hvað hann hefur náð langt á þessum litla báti. Það gekk hratt hjá honum frá Neskaupstað til Patreksfjarðar,“ sagði Arnþór. Hann sagði að skútan sem Andrew siglir væri hönnuð til úthafssiglinga þótt hún væri lítil. Frakkar hefðu keppt í að sigla svona skútum þvert yfir Atlantshafið. Seglin væru stór miðað við stærð bátsins og þeir því hraðsigldir. 

Síða siglingarinnar á Facebook

Áheitasíða siglingarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert