„Það er alltaf sama ákallið. Það þyrfti að koma aftur á láglendisgæslu björgunarsveitanna á þessum fjölförnu stöðum á Suðurlandi, fá lögreglubíl staðsettan í Öræfin og hafa staðbundinn hjúkrunarfræðing innan Vatnajökulsþjóðgarðs,“ segir Guðrún Dadda Ásmundardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar á Höfn í Hornafirði, eftir rútuslysið við Hofgarða skammt norðan við Fagurhólsmýri fyrr í mánuðinum.
Í rútunni voru 32 farþegar auk bílstjóra. Fjórir voru alvarlega slasaðir og voru fæstir í bílbeltum.
Guðrún Dadda tekur fram að samstarf allra viðbragðsaðila; björgunarsveita, lögreglu, sjúkraflutningamanna og heilbrigðisstarfsfólks, hafi verið til fyrirmyndar. „Við höfum heyrt það utan að okkur að það er litið til þessa samstarfs því það gengur svo vel. Á þessum fleiri hundruð kílómetra kafla hlupu allir til. Því miður er komin mikil reynsla á þetta samstarf,“ segir hún.
Hvert tækifæri er nýtt til að rýna slíkan atburð til gagns til að læra sem mest af því þvert á svæðin. Í gærkvöldi var viðrunarfundur innan allra eininga þar sem farið var yfir viðbrögð við slysinu. Eftir það verður stór rýnifundur með öllum aðilum, venju samkvæmt.
Á þeim fundi verður meðal annars tekin ákvörðun um hvort kalla þurfi til sérfræðing í áfallahjálp eftir slysið. Guðrún tekur fram að hún viti ekki til þess að óskað hafi verið eftir því í þetta sinn en það á eftir að koma í ljós. Í þessu samhengi bendir hún á mikilvægi félagastuðnings innan hverrar deildar eftir atvik sem þetta. Þess má geta að viðbragðsaðilar á þessu sama svæði fengu áfallahjálp eftir banaslysið við Núpsvötn milli jóla og nýárs í fyrra þegar þrennt lést, tvær konur og eitt barn sem var tæplega ársgamalt.
„Þekkingarauðurinn hjá björgunarsveitunum í Öræfunum er gríðarlegur. Það sem hræðir mig mest er að þetta mikla álag verði til þess að fólk gefist upp. Það væri skelfilegt því þetta er svo ótrúlega klárt og fært fólk sem er þarna. Við verðum að hlúa vel að því sem vel er gert og passa að missa ekki fólkið okkar,“ segir hún og ítrekar mikilvægi viðrunarfundanna hjá starfsfólki.
Hún bendir á að eftir alla þessa rýnifundi sem hafa verið haldnir eftir stórslys sé ávallt bent á sömu brotalamirnar, eins og greint er frá að ofan. Hún segir alveg sama hvar borið sé niður og allir séu sammála um að meðal annars þurfi að efla eftirlit lögreglu. „Það eru meiri líkur á hraðari umferð. Þessir þröngu vegir og einbreiðu brýr hjálpa heldur ekki við að fyrirbyggja slysin.”