Þrír Íslendingar á Everest í dag

Mikill fjöldi fjallgöngufólks reynir að ná á tind Everest þessa …
Mikill fjöldi fjallgöngufólks reynir að ná á tind Everest þessa dagana en þessi mynd er frá því í nótt. Um 200 manns fóru á tindinn í gær. Af Facebook-síðu Mount Everest 8848M

Þrír Íslendingar toppuðu hæsta fjall heims, Everest, í morgun því auk Bjarna Ármannssonar stóðu þeir Leifur Örn Svavarsson og Lýður Guðmundsson þar einnig í morgun. Líkt og fram kom í morgun náði Bjarni Ármannsson á tind Everest í morgun. Það þýðir að alls hafa níu Íslendingar náð á tind Everest en fyrstir til þess voru þeir Björn Ólafs­son, Ein­ar K. Stef­áns­son og Hall­grím­ur Magnús­son, 21. maí 1997.

Leifur Örn er í sinni annarri ferð á Everest en hann er eini Íslendingurinn sem hefur farið norðurhlið Everest á tindinn en afar fáir fara þá leið upp enda mun erfiðari en suðurhliðin.

Lýður er þar með þriðji Íslendingurinn sem nær svo kölluðu Advent­ure Grand Slam þar sem hæsti tind­ur hverr­ar heims­álfu er klif­inn auk Suður- og Norður­póls­ins. Auk hans hafa þeir Haraldur Örn Ólafsson og Leifur Örn náð þeim áfanga. Leifur Örn er nú eini Íslendingurinn sem hefur bætt um betur því hann hefur klifið Everst í tvígang. 

Samkvæmt vef Adventure Consultants náðu þeir Leifur Örn og Lýður einnig á tindinn í nótt en samkvæmt heimildum mbl.is voru þeir komnir á tindinn upp úr miðnætti að íslenskum tíma. Allt hafði gengið vel og samkvæmt áætlun og eru þeir á leiðinni niður af fjallinu. Þeir eru komnir niður í suðurskarðið þar sem þeir hvíla um stund áður en haldið verður áfram niður í efstu búðir. Leifur Örn er fararstjóri Lýðs í leiðangrinum en Adventure Consultants og Íslenskir fjallaleiðsögumenn hafa verið í samstarfi árum saman. Leifur Örn starfar sem leiðsögumaður hjá báðum fyrirtækjunum.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert