Þrír Íslendingar toppuðu hæsta fjall heims, Everest, í morgun því auk Bjarna Ármannssonar stóðu þeir Leifur Örn Svavarsson og Lýður Guðmundsson þar einnig í morgun. Líkt og fram kom í morgun náði Bjarni Ármannsson á tind Everest í morgun. Það þýðir að alls hafa níu Íslendingar náð á tind Everest en fyrstir til þess voru þeir Björn Ólafsson, Einar K. Stefánsson og Hallgrímur Magnússon, 21. maí 1997.
Leifur Örn er í sinni annarri ferð á Everest en hann er eini Íslendingurinn sem hefur farið norðurhlið Everest á tindinn en afar fáir fara þá leið upp enda mun erfiðari en suðurhliðin.
Lýður er þar með þriðji Íslendingurinn sem nær svo kölluðu Adventure Grand Slam þar sem hæsti tindur hverrar heimsálfu er klifinn auk Suður- og Norðurpólsins. Auk hans hafa þeir Haraldur Örn Ólafsson og Leifur Örn náð þeim áfanga. Leifur Örn er nú eini Íslendingurinn sem hefur bætt um betur því hann hefur klifið Everst í tvígang.
Samkvæmt vef Adventure Consultants náðu þeir Leifur Örn og Lýður einnig á tindinn í nótt en samkvæmt heimildum mbl.is voru þeir komnir á tindinn upp úr miðnætti að íslenskum tíma. Allt hafði gengið vel og samkvæmt áætlun og eru þeir á leiðinni niður af fjallinu. Þeir eru komnir niður í suðurskarðið þar sem þeir hvíla um stund áður en haldið verður áfram niður í efstu búðir. Leifur Örn er fararstjóri Lýðs í leiðangrinum en Adventure Consultants og Íslenskir fjallaleiðsögumenn hafa verið í samstarfi árum saman. Leifur Örn starfar sem leiðsögumaður hjá báðum fyrirtækjunum.