Umhverfisstofnun auglýsir nú eftir tilnefningum til nýrrar viðurkenningar sem hlotið hefur heitið Bláskelin. Viðurkenningin verður veitt fyrirtæki, stofnun, einstaklingi eða öðrum fyrir framúrskarandi lausnir sem stuðla að minni plastnotkun og plastúrgangi í samfélaginu.
Frá þessu er greint í frétt á vef Stjórnarráðsins, en viðurkenningin er hluti af aðgerðum umhverfis- og auðlindaráðherra til að draga úr neikvæðum áhrifum plastnotkunar. Sérstök úthlutunarnefnd mun velja viðurkenningarhafa, en nefndina skipa fulltrúar frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Plastlausum september og Umhverfisstofnun.
„Plast í hafi er víðtækt vandamál og örplast hefur greinst í æ fleiri lífverum, þar á meðal bláskel. Með viðurkenningunni Bláskelinni berjumst við gegn plastmengun, höldum á lofti því sem vel er gert og hvetjum til nýsköpunar og frumlegra lausna – án plasts,“ er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfis- og auðlindaráðherra í fréttinni. „Meðvitund fólks um plastvandann hefur aukist mjög á skömmum tíma. Það er ótrúleg gróska í samfélaginu og fullt af flottum lausnum þarna úti. Að virkja þennan kraft er mjög mikilvægt.“
Umhverfis- og auðlindaráðherra fékk í lok síðasta árs afhentar tillögur frá samráðsvettvangi sem hann skipaði um plastmálefni og voru viðurkenningar fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir þar á meðal.