Jeffrey Ross Gunter hefur verið skipaður nýr sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, en öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti tilnefningu hans í gær. Donald Trump tilfnefndi Gunter í embættið í ágúst í fyrra, en enginn skipaður sendiherra hefur verið starfandi á Íslandi frá því að Robert C. Barber lét af embætti í janúar 2017.
Gunter er menntaður húðlæknir og hefur starfað sem slíkur í yfir aldarfjórðung. Hann hefur einnig tekið þátt í störfum repúblikanaflokksins og verið formaður bandalags gyðinga innan flokksins.
Hann hefur aldrei verið í opinberu embætti vestanhafs, en studdi fjárhagslega framboð Bandaríkjaforseta árið 2016 með 100.000 dollara framlagi, samkvæmt nýlegri úttekt NBC á sendiherraskipunum Donalds Trump frá því að hann tók við embætti.
Auk ensku talar Gunter spænsku, frönsku og hollensku, en eiginkona hans, sem lést árið 2016, var hollenskur innflytjandi í Bandaríkjunum.
Gunter hefur aldrei komið til Íslands, samkvæmt bréfi sem hann ritaði utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar í október í fyrra.