Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða Jóni Trausta Lútherssyni 1,8 milljónir króna í skaðabætur auk vaxta vegna ólögmæts gæsluvarðhalds sem hann sætti vegna rannsóknar á dauða Arnars Jónssonar Aspar árið 2017.
Málskostnaður á milli aðila fellur niður og allur sakarkostnaður stefnanda skal greiðast úr ríkissjóði.
Jón Trausti fór fram á 10,5 milljónir króna í skaðabætur frá ríkinu vegna gæsluvarðhaldsins.
Jón Trausti sætti einangrun í 21 dag en Sveinn Gestur Tryggvason var einn ákærður og dæmdur fyrir að hafa valdið dauða Arnars. Sex voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins.
Ríkislögmaður hafnaði bótakröfu Jóns Trausta með þeim rökum að hann hefði sjálfur valdið eða stuðlað að gæsluvarðhaldinu með því að hafa ekki sýnt samvinnu við rannsókn málsins, gefið litlar eða óljósar skýringar á atburðarás og hafnað því að veita lögreglu leyfi til að skoða símann sinn.