„Það verður að koma í ljós. Við verðum að haga okkar undirbúningi miðað við þetta,“ segir Trausti Hafliðason, ritstjóri Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, spurður hvort ekki verði erfiðara að vinna upplýsingar í tekjublað Frjálsrar verslunar þar sem ríkisskattstjóri gefur ekki upp lista yfir tekjuhæstu einstaklingana í ár.
Í apríl sagði ríkisskattstjóri að álagningarskrár kæmu út 31. maí en önnur dagsetning var gefin upp í dag. Þær verða birtar 19. ágúst. Í samtali við mbl.is greindi ríkisskattstjóri að unnið væri að því að ákveða með hvaða hætti upplýsingarnar birtust í álagningarskránni.
„Hvernig framlagningu álagningaskránna verður háttað kemur svo bara í ljós. Það er ótímabært að svara því á meðan skatturinn er enn að skoða þetta,“ segir Trausti spurður hvort tekjublað Frjálsrar verslunar komi út í ár.