Landsréttur hafnar kröfu ALC

Landsréttur hafnaði í dag kröfu bandarísku flugvélaleigunnar ALC um að fá afhenta farþegaþotu í eigu fyrirtækisins af gerðinni Airbus A321 sem var leigð til WOW air áður en flugfélagið varð gjaldþrota og staðfesti þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Lögmaður ALC segir úrskurðinn vonbrigði og að verið sé að fara yfir niðurstöðuna.

Málið snýst um það hvort Isavia hafi verið heimilt að taka veð í farþegaþotu ALC vegna vangoldinna gjalda WOW air upp á um 2 milljarða króna eða hvort einungis hafi verið lögum samkvæmt að krefjast þeirra gjalda sem beinlínis tengjast notkun þotunnar.

Landsréttur segir í úrskurði sínum að samkvæmt 1. málsgrein 136. greinar laga um loftferðir nr. 60/1998 og lögskýringargögnum að baki breytingum á ákvæðinu fælist heimild til þess að beita greiðsluþvingun uns gjöld væru greidd vegna viðkomandi loftfars eða annarrar starfsemi eiganda þess eða umráðaanda.

Ennfremur kemur fram í úrskurðinum að ekki sé að finna í 136. grein laga um loftferðir neinar takmarkanir á umfangi þeirra gjalda sem heimilt væri að þvinga fram greiðslur á með því að aftra för loftfars eða hversu lengi vanskil mættu hafa staðið yfir.

„Þessi úrskurður kemur okkur verulega á óvart og eru okkur mikil vonbrigði. Við teljum hann í raun vera slæmar fréttir fyrir allan íslenskan flugrekstur að Isavia komist upp með þessa háttsemi að mati Landsréttar. Við erum annars bara að fara yfir allar forsendur Landsréttar og munum kanna alla möguleika til þess að koma þessari niðurstöðu fyrir Hæstarétt,“ segir Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert