Barðsvíkin kjaftfull af rusli

Hópurinn að störfum í fjörunni í Bolungavík í fyrra. Þar …
Hópurinn að störfum í fjörunni í Bolungavík í fyrra. Þar voru hreinsuð 9,5 tonn af rusli. Ljósmynd/Aðsend

Félagið Hreinni Hornstrandir stendur fyrir hreinsunarferð í Barðsvíkina helgina 14.-16. júní og segir forsprakki hópsins Barðsvíkina kjaftfulla af rusli. Sjálfur hóf hann að hreinsa rusl á Hornströndum eftir að franskur ljósmyndari setti upp sýningu erlendis á ruslinu við strendurnar.

Ferðin í Barðsvíkinni verður sjötta hreinsunarferðin sem farið er á Hornstrandir og segir Gauti Geirsson, forsprakki áhugamannafélagsins Hreinni Hornstrandir, ekki enn búið að taka sama svæðið tvisvar. „Það er þó farið að styttast í annan endann á þeim svæðum sem við merktum sem mikilvæg að fara yfir,“ segir hann.

Í fyrra voru týnd  9,5 tonn af rusli í Bolungavík, sem Gauti segir ekki vera mikið stærri en Barðsvíkina sem er lítil eyðivík á austanverðum Hornströndum. Ruslinu í Bolungavík var vel að merkja safnað á einum degi, en núna ætlar hópurinn sér tvo daga í verkið. „Barðsvíkin er alveg kjaftfull af rusli, þannig að við búumst við mikilli vinnu þar.“

Gauti Geirsson við eitt varðskipa Landhelgisgæslunnar. Hann segir að án …
Gauti Geirsson við eitt varðskipa Landhelgisgæslunnar. Hann segir að án aðstoðar gæslunnar myndi hreinsunarátakið ekki ganga upp. Ljósmynd/Aðsend

Komast færri að en vilja

Mikill áhugi er á að taka þátt í hreinsun Hornstranda og segir Gauti umsóknum hafa rignt inn, en lokað var fyrir umsóknir á fimmtudag. „Eins og öll árin þá komast færri að en vilja,“ segir hann og kveður gaman að finna fyrir áhuganum.

Á bilinu 25-50 manns hafa tekið þátt í hreinsuninni hverju sinni, en fjöldi hreinsunarmanna fer m.a. eftir aðstæðum á hverjum stað. Þannig tóku til að mynda um 40 manns þátt í fyrra, en þá opnaði húseigandi í Bolungavík hús sitt fyrir hreinsunarfólkið.

Núna eru aðstæður hins vegar erfiðari. Ganga þarf báðar leiðir og dvelja í tjöldum á staðnum og þess vegna er hentugra að hafa hópinn minni. Þátttakendur þurfa líka að vera í ágætis formi, enda er tínslan erfiðisvinna. „Þetta eru heilu trollin sem við erum að rífa upp. Þetta er hörkuvinna og það vita þeir sem hafa komið með okkur. Það eru því allir mjög þreyttir en glaðir eftir svona ferð,“ segir Gauti.

Hornbjarg blasir hér við úr varðskipinu eftir ruslhreinsunarferð árið 2016.
Hornbjarg blasir hér við úr varðskipinu eftir ruslhreinsunarferð árið 2016. Ljósmynd/Aðsend

Spænskir tannburstar og rússneskar gosflöskur

Spurður hvort þetta sé sama fólkið sem taki þátt í hreinsuninni ár eftir ár, segir hann þá sem einu sinni hafa komið sækja það stíft að koma aftur. Uppistaðan í hópinum er jafnan Vestfirðingar. „Við höfum þó alltaf fengið umsóknir alls staðar að af landinu og raunar líka frá útlöndum þannig að það er mikill áhugi. Einnig hafa nemar frá háskólasetri Vestfjarða tekið þátt í hreinsuninni öll árin. „Þeir hafa líka verið að upprunagreina ruslið og hafa notað það í námi sínu,“ útskýrir Gauti.

Mikið af ruslinu á uppruna sinn erlendis, sem og hjá útgerðarfyrirtækjum. Forvitnilega og undarlega hlutir rekur stundum á fjörur hreinsunarfólksins og nefnir Gauti sem dæmi tannbursta með spænskri áletrun, rússneskar gosflöskur og netabaujur frá Kanada. „Þannig að það er bara Atlantshafið undir,“ segir hann og kveður augun opnast fyrir vandanum hjá þeim sem taka þátt í hreinsuninni.

Hópurinn í Bolungavík. Landeigandi þar opnaði hús sitt fyrir hreinsunarfólkið.
Hópurinn í Bolungavík. Landeigandi þar opnaði hús sitt fyrir hreinsunarfólkið. Ljósmynd/Aðsend

Sóðaskapurinn ekki ásættanleg útflutningsvara

Líkt og fyrri ár þá mun varðskip Landhelgisgæslunnar aðstoða við að koma ruslinu til byggða. „Þetta væri í raun ekki hægt án þeirra, því þetta er svo mikið magn,“ segir Gauti. Ruslinu er safnað í saltpoka sem svo eru fluttir um borð í varðskipið þegar vel hittir á hjá Gæslunniog þeir svo ferjaðir til Ísafjarðar.

Upphafið af hreinsunarátakinu sem hófst fyrir sex árum, líkt og áður sagði, má rekja til þess er Gauti var að vinna á farþegabát í ferðaþjónustu og var því mikið á svæðinu. „Þá heyrði ég af frönskum ljósmyndara  sem ætlaði að taka myndir af Hornströndum. Honum blöskraði hins vegar svo ruslið í fjörunum að hann endaði á að taka bara myndir af því og fór með sýningu út. Það var kveikjan hjá mér,“ segir Gauti. Stolt á heimahögunum hafi ekki leyft að sóðaskapurinn væri orðinn útflutningsvara.

Hann segir Ísafjarðarbæ hafa verið í svipuðum hugleiðingum um þetta leiti og því hafi þeim sem áhuga höfðu á hreinsuninni verið safnað saman.

„Við óðum blint í sjóinn með þetta, en þegar lengra hefur liðið á þá hefur maður áttað sig á því að þetta er náttúrulega miklu stærra mál heldur en bara útlitslega fyrir fjörurnar. Þetta snýst um lífríkið og að ruslið sé að brotna niður.“

Gauti segir mann enn fremur átta sig á því við hreinsunina hversu víðfeðmur vandinn er. „Maður er bara með teskeið að kroppa í einhvern næstum því óleysanlegan vanda,“ segir hann. „Ef allir líta hins vegar í eigin barm og gera það sem þeir geta, þá gerist samt ansi mikið.“

Hreinsunin á Hornströndum er hörkuvinna, enda eru heilu trollinn þar …
Hreinsunin á Hornströndum er hörkuvinna, enda eru heilu trollinn þar rifin upp. Hér er rusl í fjöru í Bolungavík í fyrra. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert