Launahækkanir kjararáðs ráðgáta

Samkvæmt lögum sem voru í gildi um kjararáð átti ráðið …
Samkvæmt lögum sem voru í gildi um kjararáð átti ráðið að „birta ákvarðanir sínar og úrskurði og ástæður fyrir þeim opinberlega með skipulegum og aðgengilegum hætti.“ mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ekki eru til nein gögn um það hvaða forstjórar ríkisstofnanna fengu afturvirka launahækkun með ákvörðun kjararáðs árið 2011. Sagðist kjararáð ætla að tilkynna hverjum og einum með bréfi hvaða hækkun þeir myndu fá, en bréfin voru aldrei send. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Eina launahækkunin sem vitað er um er 214 þúsund króna hækkun mánaðarlauna forstjóra Landspítalans, en hann greindi frá því sjálfur í forstjórapistli á vef spítalans í júlí á síðasta ári að hann hefði 33 fleiri yfirvinnueiningar en þær eitt hundrað sem hann fékk samkvæmt úrskurði ráðsins árið 2010.

Tilkynnt með bréfi

Í úrskurði kjararáðs frá 21. desember 2011 sem birtur var á vef þess var sagt frá því að ákvörðun um launahækkanir yrði tilkynnt hverjum og einum með bréfi, en ekki fylgdi ákvörðuninni neinn rökstuðningur.

Síðasta haust var farið á leit við fjármálaráðuneytið um að fá fundargerðir kjararáðs afhentar. Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar upplýsingamála varð ráðuneytið við beiðninni, en afhenti ekki eldri fundargerðir en aftur til ársins 2015 þar sem úrvinnsla beiðninnar þótti of umfangsmikil.

Var þá óskað eftir stakri fundargerð frá fundi ráðsins í desember 2011 og varð ráðuneytið við þeirri beiðni. Í þeirri fundargerð kemur aðeins fram að „ákvörðun kjararáðs um mánaðarlaun og einingafjölda verður birt með bréfum sem send verða hverjum og einum.“

Beðið svars

Er þetta orðrétt sama orðalag sem er að finna í úrskurði ráðsins og er því með öllu óljóst hverjir fengu afturvirka launahækkun samkvæmt úrskurði ráðsins eða hversu mikla hækkun er um að ræða. Jafnframt er þar enginn rökstuðningur.

Var fjármálaráðuneytinu því send fyrirspurn á ný í apríl og óskað eftir því að fá afrit af öllum fylgigögnum umrædds fundar og ekki síst afrit af þeim bréfum sem kjararáð segist hafa sent hverjum og einum. Þann 6. maí tilkynnti ráðuneytið að enn væri verið að skoða erindið og að gert væri ráð fyrir því að svar myndi berast fyrir 23. maí og að skýring tafanna væri að gögnin væru ekki nema að hluta til á rafrænu formi og eru frá öðru stjórnvaldi sem tefur vinnslu málsins.

Bar að birta rökstuðning

Síðdegis í gær barst síðan svar frá ráðuneytinu þar sem segir: „Ráðuneytið hefur kannað gögn sem stafa frá kjararáði og liggur fyrir að engin fylgiskjöl eru með tilvísaðri fundargerð. Þá liggur einnig fyrir að bréf voru ekki send einstaklingum sem undir ráðið heyrðu, þrátt fyrir fyrirætlan þar um í fundargerðinni.“

Í lögum sem voru í gildu um störf kjararáðs segir að ráðið skuli „birta ákvarðanir sínar og úrskurði og ástæður fyrir þeim opinberlega með skipulegum og aðgengilegum hætti.“

Jafnframt var ráðinu skylt að „skilgreina samanburðarhópa og birta í úrskurði sínum tölulegar upplýsingar um laun og launaþróun þeirra“ við endurmat launasetningar einstakra hópa.

Reynt var að ná tali af Jónasi Þór Guðmundssyni, fyrrverandi formanni kjararáðs, til þess að leita skýringa á málinu, án árangurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert